150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

66. mál
[16:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður áttaði sig sjálfur á mótsögninni í máli sínu, annars vegar í umræðum um hið mikla frelsi sem flutningsmenn eru að færa sveitarfélögunum og hins vegar í því að hér er akkúrat verið að setja þeim mjög skýrar skorður, (ÓBK: … eru þeir til staðar.) að fulltrúar verði ekki færri en fimm. Eru til staðar, kallar hv. þingmaður. Það vill svo til að við getum breytt lögum og hér er akkúrat verið að leggja til að gera það. Ég vona að hv. þingmaður hafi áttað sig á því.

Hér er verið að setja skorður þannig að alveg sama í hvaða búning við klæðum það leggja flutningsmenn þessa frumvarps það til að sá sjálfsákvörðunarréttur verði tekinn af sveitarfélögum. Flutningsmenn leggja til að þetta verði gert á annan hátt en í dag svo ég gef ekki mikið fyrir tal um frelsi samhliða þessu. Af hverju ekki að leyfa sveitarfélögunum að kjósa? Af hverju ekki að hlusta á sveitarfélögin sem komu að þessari vinnu? Það sem var ekki síst hugsunin var að þetta ætti ekki að vera eilíft köpurmál innan sveitarfélaganna sjálfra eða fara eftir því hvaða flokkar mynduðu meiri hluta á hverjum stað heldur væru þetta bara einfaldar reglur sem þyrfti ekkert að vera að velta sér mikið upp úr eða rífast um fyrir kosningar. Af hverju ekki að hlusta á sveitarfélögin? spyr ég nú bara.

Þá kemur að því, forseti, sem gerði mig hvað mest hissa á því að málið kæmi fram núna, að í hv. umhverfis- og samgöngunefnd erum við að vinna að stefnumótun fyrir sveitarfélög þar sem sveitarfélögin sjálf hafa lýst yfir vilja sínum til að sameinast, um að þeim fækki. Er ekki ráð að bíða með allar svona tillögur þangað til eftir þær miklu sameiningar sem líklegt er (Forseti hringir.) að séu fram undan nái sú stefnumótun fram að ganga?