150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[17:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að hann hafi áhyggjur af því að hér verði hægt að veita ótímabundin leyfi til nýtingar. Það er ekki svo, hins vegar er gallinn sá að meta þarf hvert einstakt tilfelli þegar við erum að tala um tímalengd. Þeir útreikningar þurfa, eins og ég nefndi áðan, að fela það í sér að sá aðili sem nýtir námuna fái fjárfestinguna til baka og það sem er kallað hæfilegur arður. Það getur verið mjög mismunandi milli stærðar námu, svo dæmi sé tekið. Við erum með nokkrar námur í þjóðlendum nú þegar þar sem á að fylgja þessum meginsjónarmiðum en það getur verið mjög mismunandi milli bæði stærðar námu og líka tegundar þess jarðefnis sem er verið að vinna úr námunni. Það er erfitt að setja tiltekinn árafjölda hér í nýtingu. Yfir það verður hægt að fara nánar í nefndinni en hins vegar er sú skylda lögð á stjórnvöld að meta þetta hverju sinni.

Það er ekki hægt að veita ótímabundin leyfi svo ég segi það svona í lokin.