150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[17:31]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að taka til umfjöllunar úthlutunarreglur Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem ég hef hingað til talið að hafi bara starfað eftir þeim reglum sem honum eru settar. Sú spurning sem ég bar upp við hæstv. ráðherra var þessi: Ef ekki næst niðurstaða í endurskoðun rammasamnings hvernig verður staðan þá? Nú tek ég það fram að það er ekki óskamál þess sem hér stendur hvort þetta gangi eftir eða ekki. Þetta er ágætlega fram sett og eins og ráðherra kom ágætlega inn á varðandi Matvælasjóð verður hann deildaskiptur og þess háttar og ég hef ekki stórar áhyggjur af því, en það sem ég hef áhyggjur af, og nú hefur ráðherra greinilega heyrt sömu raddir og ég um rammasamninginn, er að þetta snýst fyrst og fremst um það að ef menn ná ekki niðurstöðu í endurskoðun rammasamnings sé þessi leið varðandi Matvælasjóð í uppnámi.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að ef allir samningar eru ekki skoðaðir í einu, þessir fjórir samningar — endurskoðun á sauðfjársamningi er lokið, endurskoðun á nautgripasamningi er nýlokið, þá eigum við eftir garðyrkjuna og rammasamning — þá séu þeir allir í uppnámi. Það eru nýjar fréttir fyrir mér. Ég hef hingað til skilið það þannig að hver og einn samningur sé endurskoðaður og þeir séu ekki bundnir hver öðrum.