150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[17:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði andsvörin og þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég er ekkert hvefsinn yfir þessu, mig langar bara að komast áfram í vinnu. Óþreyjan rekur mann fram til verka. Þarna er í mínum huga alveg klárlega tækifæri til að berja í ákveðna bresti. Menn hafa kannski tapað að einhverju leyti af tíma, ekki mætt þeim nýju kröfum sem hafa risið á þessu sviði. Þegar þess er gætt að inni í þessum tiltekna sjóði eru ekki nema u.þ.b. 134 milljónir og hluti af þeim fjármunum er nýttur til að fjármagna opinberar stofnanir segi ég: Þjónar það best bændum og framleiðslu þeirra? Ég hef efasemdir um það. Förum í gegnum það og skoðum það. Tengjum það öðrum áherslum stjórnvalda sem verið er að vinna eftir við opinber innkaup matvæla. Getum við tengt þetta betur saman? Getum við tengt áherslur sem koma inn í matvælastefnuna sem er í vinnslu og kemur fram vonandi öðrum hvorum megin við áramót við matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar? Ég er ekkert í vafa um að þetta er gerlegt og gott. Ég tel að með þessu séum við hreinlega að búa okkur undir aðrar áherslur.

Þegar maður horfir t.d. á aðgerðaáætlunina eins og hún liggur fyrir í öllum sínum 20 liðum, eða guð má vita hvað þeir voru margir, er þetta í fyrsta skipti sem þingið hefur samþykkt lengri tíma stefnumörkun til stuðnings íslenskum landbúnaði. Það er fínt, mjög ánægjulegt og gott. Ég held að við eigum eftir að vinna mörg góð verk á þessu sviði samkvæmt þeirri forskrift sem gefin er í þingsályktuninni sem samþykkt var. Ég minni þingsalinn á að ég gef fljótlega skýrslu um framgang þeirrar áætlunar.

Það er leitt að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi ekki treyst sér til að starfa lengur innan vébanda atvinnuveganefndar. Ég átti við hann ágætissamstarf meðan hann var þar en ég veit að hann verður bara með okkur í anda og öðrum verkum og leggur sig fram um að gera góða hluti enn betri. Það er ágætt að vita af liðsmönnum í öðrum nefndum líka. Ég vænti þess að þetta mál verði til framfara og geti skotið enn styrkari stoðum undir íslenska landbúnaðarframleiðslu.