150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Markmið LÍN átti frá upphafi að vera að tryggja öllum sömu réttindi til menntunar. Sjóðurinn var stofnaður til að tryggja börnum verkafólks og efnalítilla fjölskyldna aðgang að háskólanámi til jafns á við þá efnameiri. En nú sýnist mér að verið sé að hverfa aðeins frá því. Það er vissulega eitt og annað gott í frumvarpinu, t.d. að við séum að stíga skref í átt að styrkjakerfi og að það verði greitt út mánaðarlega en mér sýnist að það eigi að hækka vexti verulega og auka þannig áhættu ungs fólks. Ekki nóg með það heldur verða vextirnir breytilegir og án hámarks. Auk þess er ríkissjóður að minnka eigin áhættu og veltir henni yfir á stúdenta með því að kynna til sögunnar sérstakt álag á afföll sem verða hjá menntasjóðnum. Þetta er auðvitað mjög sérstakt.

Sjálfur greiddi ég enga vexti af mínum námslánum. Konan mín greiddi örlitla vexti en börnin mín eiga að greiða miklu meiri vexti. Mér finnst það dálítið öfugsnúið (Forseti hringir.) þegar við höfum í raun — á ég ekki 10 sekúndur eftir?

(Forseti (WÞÞ): Hafðir eina mínútu.)

Ég er enn þá að telja niður. Er ég kominn upp yfir?

Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún sé ekki í raun að hverfa að hluta til í öfuga átt.