150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt er gott í þessu frumvarpi og það eru tiltekin ákvæði sem ég fagna sérstaklega. Ég sé þarna gamla góða kunningja. Mér finnst þetta vera góð blanda af frumvarpi þáverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og mörgu góðu sem kom fram í frumvarpi Illuga Gunnarssonar. Það voru ólík mál en það sem mér finnst jákvætt er að ekki er verið að kasta öllu fyrir róða heldur reyna að samþætta marga af þeim góðu hlutum sem komu fram og voru vel unnir á þeim tíma. Þannig að það er margt jákvætt hér. Auðvitað er eitt og annað sem maður setur spurningarmerki við og við munum að sjálfsögðu fara vel yfir þetta í Viðreisn.

Mig langar aðeins að fara yfir umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands og spyrja í fyrsta lagi: Getur ráðherra fullyrt að stúdentar, sem hafa miklar áhyggjur af því, geti framfleytt sér á meðan þeir eru í námi samkvæmt nýrri umgjörð? Getur ráðherra fullyrt að námsmenn geti framfleytt sér í námi í þessari umgjörð?