150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umsögn hv. þingmanns og að hann taki eftir því að það sem við gerðum við vinnslu frumvarpsins var að skoða og gera hreinlega bara samanburð á þeim frumvörpum og þeirri vinnu sem hafði átt sér stað. Við hugsuðum líka út fyrir kassann um hvað við gætum gert betur og við erum sér í lagi að huga að barnafjölskyldum og því að einstaklingarnir fari minna skuldsettir inn í framtíðina vegna þess að ég held að þetta hafi orsakað ákveðinn spekileka.

Hv. þingmaður spyr hvort stúdentar geti framfleytt sér á þessu. Þarna koma úthlutunarreglurnar inn. Ég er sammála því að eitt af því sem hefur verið að gerast hér á Íslandi er að sífellt færri taka námslán. Þeir vinna með námi. Þeir klára nám mun seinna en í viðmiðunarlöndum okkar. Það er m.a. út af þessari framfærslu. Við höfum verið að auka hana svo um munar á þessu kjörtímabili og við þurfum að skoða hana enn frekar. Það þarf að vera tryggt að stúdentar geti framfleytt sér en þetta frumvarp, fullyrði ég, er risastórt skref í þá (Forseti hringir.) átt að gera kerfið mun sanngjarnara, gagnsærra og betra til framtíðar.