150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Við munum að sjálfsögðu fara yfir öll þessi fögru, mikilvægu orð um gegnsæi og að horfa inn í framtíðina en mér fannst ekki ráðherra geta fullyrt að námsmenn geti verið rólegir varðandi framfærsluna á þessum grunni. Við munum að sjálfsögðu fara yfir það og skoða með jákvæðum huga því að það er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að byggja utan um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er mjög mikið af fjármagni núna inni í sjóðnum sem bíður þess að vera notað í góða þágu sem er verið að gera hér. Ég hins vegar vara við því að við kollvörpum öllu heldur reynum frekar að byggja inn í grunninn og með stúdenta og framtíðarverðmætasköpun í gegnum háskólastarfið í huga.

Mig langar að spyrja, það er kannski aukalega og það eru reyndar nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi um vextina. Stúdentaráð hefur áhyggjur af því að vextirnir geti hækkað verulega. Deilir ráðherra þeim áhyggjum? Hin spurningin er: Hvað með diplómanámið, nám fatlaðra í Háskóla Íslands sem var sett af stað á sínum tíma? Breytist staða þeirra eitthvað? Er með einhverju móti hægt að segja til um diplómanemendur, fatlaða nemendur við Háskóla Íslands — það er verið að opna dyr fyrir tiltekinn hóp — getur staða þeirra styrkst með þessu frumvarpi?