150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson talaði um framfærslu. Stúdentar á námslánum hafa áhyggjur af henni. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig eigum við að finna út rétta framfærslu? Hver á að finna hana út og hvernig eigum við að reikna hana út? Þá lendum við í þeim vanda að við höfum ekki farið þá slóð til enda að reikna algerlega út hvað einstaklingur þarf til þess að lifa af og síðan hvað fjölskylda þurfi til að lifa af. Það eru til neysluviðmið sem eru mjög mismunandi og það virðist enginn leggja í þá för að reikna þetta nákvæmlega út. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn hafi einhverja formúlu til að reikna þetta út eða skoðun á því.

Svo er það iðnbyltingin. Hann talaði um fjórðu iðnbyltinguna og nú er tölvubylting. Hún verður bara meiri og meiri. Ég spyr hann í því samhengi vegna þess að ég hef áhuga á því að við breytum þessu kerfi einhvern veginn. Við þurfum einstaklinga í framtíðinni, efast ég ekki um, sem eru eingöngu með gífurlega tölvuþekkingu. Við þurfum einhvern veginn að virkja þessa einstaklinga. Ég veit um marga þeirra sem nefnilega fara ekki í gegnum venjulegt skólanám.