150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðuneytið tók umsögn nefndarinnar mjög alvarlega og skoðaði sérstaklega ábendingarnar er varða neysluskammta. Samtímis lá fyrir að til yrði þingmannamál, þingmannafrumvarp, þar sem hv. fyrrverandi formaður velferðarnefndar er fyrsti flutningsmaður, Halldóra Mogensen, um nákvæmlega þetta atriði. Ég tel einboðið að hv. velferðarnefnd skoði það mál samhliða.

Ráðuneytið skoðaði nákvæmlega það sem hv. þingmaður nefndi og það var gerð tilraun til að skilgreina neysluskammta en í athugasemdum lögreglunnar á fyrri stigum sem bárust í haust sagði að það yrði að gera meiri fyrirvara um neysluskammta en magnið sem ákveðið yrði að væri neysluskammtur. Það yrði að vera nokkurt svigrúm. Því var tekin sú ákvörðun að hér væri ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi. Reynsla Frú Ragnheiðar er að fólk sem um ræðir er alla jafna heimilislaust og er á daginn með þau ávana- og fíknilyf sem það ætlar að nota yfir daginn, hvort sem er í æð eða með innöndun, og það kunna að vera allnokkrir skammtar o.s.frv. (Forseti hringir.) Þannig að það voru allnokkur álitamál sem þarna komu upp í skoðun ráðuneytisins (Forseti hringir.) sem komu í veg fyrir að þetta ákvæði rataði inn í frumvarpið. En það er, eins og ég nefndi, fram komið í þingmannamáli.