150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir ljómandi góða ræðu. Ég er að stofninum til sammála því sem fram kom í ræðu hennar og hún tæpti sannarlega á mörgum afar mikilvægum málefnum. Hins vegar er eitt sem ég kemst eiginlega ekki hjá að leiðrétta í máli þingmannsins. Hún talaði um frumvarpið um vörslu neysluskammta sem Píratamál. Ég get ómögulega tekið undir það. Á málinu eru tveir Píratar, tveir Samfylkingarmenn, tveir Vinstri grænir, tveir Viðreisnarmenn og einn frá Flokki fólksins. Ég get alla vega sagt fyrir mig að ég er ekki Pírati en það er annað mál. Margir af þeim sem ákváðu að vera á málinu gerðu það í kjölfarið á þeirri vinnu sem fór fram í velferðarnefnd á síðasta þingi þar sem, eins og hv. þingmaður kom m.a. inn á, ef ég man rétt í andsvörum, var einmitt tekið fram og öll nefndin var sammála um að það væri mikilvægt að slíkt frumvarp kæmi fram. Þaðan kemur þessi afstaða, bara svo að þessu sé haldið til haga. Þó að vissulega beri tveir þingmenn Pírata málið uppi lít ég í rauninni á þetta frumvarp sem nokkurs konar afrakstur af vinnunni í þingnefndinni.