150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn sem hér stendur er ringlaðri en nokkru sinni fyrr yfir nokkrum hlut. Í fyrsta lagi vil ég koma inn á að það er allur gangur á því hversu vanabindandi vímuefni eru. Áfengi er auðvitað vímuefni og fíkniefni og dóp eins og allt hitt nema það hefur sérstaka félagslega, lagalega og menningarlega viðurkenningu og fær að vera leyfilega dópið. Sem er stórfurðulegt með hliðsjón af skaðsemi þess, miðað við skaðsemi fjölda annarra ólöglegra vímuefna. En það er önnur umræða.

Hv. þingmaður nefnir að með því að gera neysluskammta refsilausa sé hættan sú að vímuefnasalar fari þá að selja neysluskammta. Ég veit ekki betur en að þeir geri það nú þegar. Ég sé ekki fyrir mér að sú meinta breyting að söluskammtar yrðu minni væri slæm þróun. Það væri væntanlega erfiðara að koma meira magni út. Það væri væntanlega meiri kostnaður við sölu á vímuefnum, myndi ég halda í fljótu bragði. Ég fæ alla vega ekki séð hvernig þetta réttlætir það að refsa vímuefnaneytendum. Það er óhjákvæmilega fylgifiskur þess að hafa neysluskammta refsiverða. Við getum ekki haft neysluskammtana refsiverða til að grípa bófana, sölumennina, án þess að refsa þá líka fólki fyrir neyslu slíkra skammta. Það, virðulegi forseti, finnst mér bara mjög slæmur díll. Mér finnst það ekki rökrétt. Nema í einu tilfelli. Það er ef við erum í stríði. Í stríði réttlæta samfélög og einstaklingar alls konar hegðun sem þeir myndu aldrei réttlæta annars. Að fara með vopn og deyða aðrar manneskjur í eins miklu magni og maður getur. Slík geðsturlun, virðulegur forseti, viðgengst í stríði vegna þess að í stríði tileinkar fólk sér það hugarfar að vera til í að vera ógeðslega vont hvert við annað. Þess vegna erum við á móti stríði og viljum ekki hafa það. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann líka út í það hvaða stríð hann eigi við þegar hann segir, með leyfi forseta: (Forseti hringir.) „Við megum ekki tapa þessu stríði.“ Hvaða stríði? Ef við erum í stríði, virðulegur forseti, þá er það tapað, dópið vann.