150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál sé komið fram að góðra þingmanna sið. Ég tek það fram í upphafi að ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið; við sjáum til hvort ég stend við það að þingmanna sið. Það er eitt sem ég verð að nefna, vegna þess að málið var til umræðu fyrr í dag og mér ber skylda til að halda því til haga í sögulegu samhengi, og það er uppruni umræðunnar hér í dag. Um er að ræða frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra, það kemur þaðan. Það kemur þaðan m.a. vegna þess að skýrsla var lögð fram af starfshópi sem var stofnaður á sínum tíma af öðru fólki. Sá sem hér stendur var reyndar í þeim starfshópi, þökk sé þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Sá starfshópur var stofnaður vegna þess að Alþingi samþykkti ályktun um að setja á fót starfshóp í kjölfar þingsályktunartillögu frá Pírötum í kjölfar stefnu sem sett var fram af Pírötum í kosningabaráttu. Þetta var kosningabaráttumál Pírata árið 2013. Ég segi þetta ekki til þess að taka neitt frá öðrum vegna þess að ég fagna því mjög að sjá hversu mikill samhugurinn er, hve fáar undantekningar eru á því að fólk styðji við þessa skaðaminnkunar- og mannúðarnálgun á vímuefni. Enda er þetta eitt af þeim málum sem að mínu viti, eins og ég sagði í kosningabaráttunni 2013, þarf bara umræðu.

Þetta er einn af þeim málaflokkum sem verður svolítið eftir á í samfélaginu vegna þess að samfélagið er óttaslegið og reitt. Það er í ákveðnu uppnámi, jafnvel einhvers konar áfalli, t.d. eftir að nýtt vímuefni kemur á markaðinn sem tekur frá okkur mörg ungmenni. Í slíku umhverfi gleymist stundum að hugsa hlutina alveg til enda og rangar ákvarðanir eru teknar. Í umræðunni festast ákveðnar mýtur og ákveðinn stríðshugsunarháttur, sem ég fer kannski aðeins meira út í á eftir, sem kemur í veg fyrir að yfirveguð og málefnaleg umræða byggð á staðreyndum og rökhugsun eigi sviðið. En sem betur fer tekst stundum að ræða málin það vel að fólk sem áður var ekkert endilega rosalega sammála, eða alla vega ekki sannfært, kemst að sömu niðurstöðu. Það er tilfellið hér og það er það sem ég sé í þessu frumvarpi. Vissulega er hægt að ræða ýmis útfærsluatriði og þess háttar, sem ég geri reyndar ráð fyrir að verði gert, bæði í hv. velferðarnefnd og hér í þingsal. En það er gríðarlegt gleðiefni hve mikill samhljómur er á meðal langflestra þingmanna sem tala um þetta og hafa yfir höfuð áhuga á málinu, um að það sé jákvætt að koma vel fram við fólk, jafnvel þótt það neyti vímuefna. Þetta er grundvallaratriði til að vinna gegn stríðshugsunarhættinum sem ég og annar hv. þingmaður ræddum stuttlega hér rétt áðan.

Að því sögðu verður líka að halda einu til haga í sambandi við þetta frumvarp og það er samhengið við það sem heitir afglæpavæðing. Þetta frumvarp er dæmi um skaðaminnkun og bara til að hafa hugtökin á hreinu er ekki allt skaðaminnkun sem dregur úr neikvæðum afleiðingum vímuefna. Skaðaminnkun er tiltekin hugmyndafræði. Hún felur í sér að það er ekki fyrsta markmiðið að draga úr neyslu þess einstaklings sem neytir vímuefnanna. Það er ekki fyrsta markmiðið og reyndar ekkert endilega markmið yfir höfuð. Markmiðið er að draga úr skaðanum af neyslu vímuefna. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Verði skaðinn enginn er ekkert að því að nota vímuefni. Raunveruleikinn er ekki alveg þannig að mörg þúsund manns geti tekið vímuefni sem hefur áhættu fólgna í sér án þess að það valdi skaða. Það segir sig sjálft. En það skiptir máli hvernig yfirvöld nálgast vímuefnavandamál einstaklinga. Það skiptir máli að það sé ekki gert út frá þeirri tálsýn, vil ég segja, að við munum einn daginn lifa í vímulausu samfélagi.

Það er svolítið leiðinlegt leyndarmál sem ég veit að fólki finnst ekki gaman að heyra, og það er ekki heldur skemmtilegt að þurfa að segja það, að samfélagið hefur ekki sýnt neinn áhuga á því að verða vímulaust. Það hefur ekki sýnt neinn áhuga á því, engan, aldrei nokkurn tímann. Ekki nú og að mínu mati mun það aldrei gerast. Það er af sömu ástæðu og samfélagið hefur ekki sýnt neinn áhuga á því að verða trúlaust. Vímulaust samfélag felur í sér að engin vímuefni verða til lengur. Það þýðir burt með áfengið. Sér einhver hv. þingmaður það fyrir sér? Nei, auðvitað ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að við vitum það öll, við sjáum það öll, að hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þrátt fyrir allan skaða, vill fullorðið fólk nota vímuefni af einhverri tegund í einhverju magni og af einhverjum ástæðum, og stundum með neikvæðum afleiðingum fyrir einstaklinginn og samfélagið allt. Það þarf engum að líka vel við þessa staðreynd en við þurfum að vera á sömu blaðsíðu með það að hún sé það, staðreynd. Fólk hefur þessa ótrúlegu hugmynd. Einstaklingur af dýrategundinni homo sapiens er svo ótrúlega mögnuð vera að hún getur sagt við sjálfa sig og umheiminn allan: Ég á þennan líkama, ég á þennan heila, ég á þennan huga, ég á þetta hjarta og ég á þessa sál — og ég geri það sem mér sýnist. Við viðurkennum þetta núna þegar kemur að kynferðislegri hegðun, kominn tími til, fyrr mátti vera. Við viðurkennum þetta líka þegar kemur að trúarbrögðum, þó að það hafi reyndar ekki verið svo óumdeilt í gegnum alla söguna eins og sagan sýnir því miður, sér í lagi í þeim hluta hennar sem er skrifuð í blóði. En þetta er eitthvað sem við ættum að hafa alveg á hreinu. Fólk ræður því sjálft hvað það gerir við sinn eigin líkama, það bara ræður því sjálft.

Jafnvel þó að samfélagið sé ekki alveg komið á sömu blaðsíðu þarna, jafnvel þó að fólk sé á móti því, jafnvel þó að meiri hlutinn sé mjög sterklega á móti því, eins og hann hefur verið þegar kemur að sumum vímuefnum, flestum vímuefnum, nema áfengi af einhverjum ástæðum, er það þannig sem einstaklingar hugsa, jafnvel þó að þeir séu ekki endilega að básúna það. Ég segi við hv. þingmenn hér inni og fólk sem hlustar heima: Hver ákveður hvaða vímuefni þú ætlar að taka? Það ert þú. Þú ákveður það. Ekki við hér og ekki löggan heldur. Það er hvert og eitt okkar. Þannig er það og þannig á það að vera í frjálsu samfélagi. Það þýðir að við verðum að bera virðingu fyrir þessu. Okkur þarf ekki að líka vel við það. Við þurfum ekki að vera sammála fólki. Okkur þarf ekki að vera vel við að aðrir trúi einhverju sem okkur finnst tóm þvæla. Við þurfum ekkert að vera sátt við það. Við þurfum bara að bera virðingu fyrir rétti fólks til að hafa ólíka trú. Okkur þarf ekkert að vera vel við val fólks hvað varðar heilbrigði, sem betur fer, en við verðum að bera virðingu fyrir rétti fólks til að ákveða það fyrir sjálft sig. Og það er alveg eins með vímuefni. Það er ekkert öðruvísi með vímuefni. Svona hugsar fólk hvort sem okkur líkar betur eða verr og þess vegna vill samfélagið ekkert verða vímulaust. Það vill ekkert verða óendanlega langlíft. Það vill ekkert verða óendanlega heilbrigt. Það vill ekkert verða trúlaust. Það vill ekki einu sinni alltaf hafa rétt fyrir sér. Við erum ekki þannig tegund, við erum ekki þannig samfélag. Við erum ekki þannig fólk.

Í ljósi þess verðum við að spyrja okkur sem löggjafarvald: Ókei, allt í góðu. Eða: Ekki allt í góðu, en svona er þetta. Hvernig ætlum við að bregðast við? Hver er okkar ábyrgð á því að haga lagaumhverfinu þannig að hlutirnir gangi nú samt sem skást fyrir sig þrátt fyrir þessa bölvanlegu staðreynd, sem hún kannski er? Það er með því að nálgast hlutina af mannúð og skilningi, af umburðarlyndi og þeim einbeitta vilja að koma vel fram við fólk sem notar vímuefni, hvort sem það er í vandræðum með neyslu sína eða ekki.

Eins og ég fór aðeins yfir í andsvari við hv. þingmann áðan er hægt að ofureinfalda hlutina og skipta vímuefnaneytendum í tvo flokka. Auðvitað eru vímuefnaneytendur jafn fjölbreyttur hópur og hver annar en ef við ofureinföldum hlutina aðeins getum við sagt að það séu til vímuefnaneytendur sem eiga í vandræðum með neyslu sína og vímuefnaneytendur sem ekki eiga í vandræðum með neyslu sína. Það gildir einu hvorn hópinn litið er á, það er ekki rökrétt, ekki mannúðlegt, og ekki rétt — það er bara ekki siðferðislega rétt, virðulegi forseti — að refsa þessum hópum, hvorum hópnum sem er.

Tenging afglæpavæðingar við þetta frumvarp sést kannski best í einni málsgrein frumvarpsins en þar er fjallað um heimild sveitarfélags til að semja við lögregluna um að láta vímuefnaneytendur í friði á ákveðnum svæðum. Það er mjög mikilvægt ákvæði í frumvarpinu og ég vona alla vega að það nái markmiði frumvarpsins þótt þetta sé ekki afglæpavæðing í allri þeirri dýrð sem ég myndi vilja sjá hana. Þar er tengingin. Hér er farið út í skaðaminnkun á grundvelli mannúðar og skilnings og umburðarlyndis gagnvart því að við erum ólík og tökum ólíkar ákvarðanir og stundum tökum við heimskulegar ákvarðanir, meira að segja sá sem hér stendur, og oftar en einu sinni, eins og fólk veit. Eftir stendur að strangt til tekið erum við að búa til ákveðið svæði — á sama tíma og við erum búin að ákveða að hvergi megi nota vímuefni, að ekki megi nota vímuefni — þar sem má samt nota vímuefni. Það gerum við ef við ætlum að sýna mannúð, ef við ætlum að sýna skilning og ef við ætlum að gera þessum hópi gott. Mér finnst þetta frumvarp endurspegla mjög vel nauðsynina á afglæpavæðingu.

Nú liggur annað frumvarp fyrir þinginu sem ég veit ekki hvort maður eigi að kalla Píratamál, Píratar eru ekki á meiri hluta á því máli eins og farið hefur verið yfir af öðrum hv. þingmönnum, þar sem fjallað er um afglæpavæðingu og hún lögð til. Ég sé mikið samhengi á milli þessara tveggja mála af þeim ástæðum sem ég hef hér reifað en ég myndi þó segja að það þurfi jafnvel meira samtal og enn lengri tíma til að sannfæra alla hér á þinginu um ágæti og mikilvægi afglæpavæðingar. En þetta mál er eitt og sér samt sem áður ótrúlega mikið framfaraskref og ég fagna því, og sama hvaða breytingar koma til með að verða gerðar á því í meðferð þingsins er sömuleiðis gleðilegt að sjá það lagt fram af meiri hluta, af ríkisstjórn, og með þá von í hjarta og einlægu trú að það verði samþykkt. Það er fagnaðarefni, virðulegi forseti, og ætti að verða okkur sem verðum kannski stundum full bölsýni í nóvembermánuði smávonarglæta um að þetta þing geti vissulega gert glæsilega hluti af og til. Ef ég mætti velja eitt mál á þessu þingi væri það sennilega þetta frumvarp en sömuleiðis hitt sem ég nefndi hér áðan.

Ég fagna þessu mjög og ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja það fram. Ég þakka einnig þingheimi og kannski umræðunni á Íslandi svona til tilbreytingar fyrir að hafa tekið þetta samtal á seinustu árum, fyrir það að við höfum hlustað hvert á annað, fyrir að hafa sýnt að fólk sé opið fyrir breytingum, opið fyrir því að gera hlutina öðruvísi en það kannski telur mikilvægast í mestu geðshræringunni þegar mesta áfallið dynur yfir. Þessi mál varða í grunninn hluti sem standa okkur næst, sem er þegar við missum fólk, jafnvel ungt fólk í blóma lífsins, vegna vímuefnamisnotkunar. Það er eðlilegt að við verðum reið og sár þegar við verðum vitni að slíku. En það er eins og einhver sagði á Bandaríkjaþingi á sínum tíma, og var haft eftir presti: Þegar vér göngum til aðgerða, skulum vér ekki verða hið illa sem við fyrirlítum.