150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka góða umræðu um þetta mál og sérlega góðar undirtektir. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram í máli ýmissa þingmanna að þetta er í raun og veru miklu stærra mál en það lítur út fyrir að vera. Þetta er mál sem er ein grein, breyting á lögum um ávana- og fíkniefni, og 2 gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Þetta er ekki stórt að umfangi en segir stóra sögu. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson sem talaði með anda málsins í ræðu sinni lýsti eftir því að við þyrftum að ráða ráðum okkar líka á alþjóðlegum vettvangi þegar við erum að tala um svona stórmál. Þá vil ég segja að sem betur fer erum við að ráða ráðum okkar á alþjóðlegum vettvangi um nákvæmlega þau mál, þ.e. bæði hugmyndafræði skaðaminnkunar og afglæpavæðingu. Það er umræða sem vex ásmegin á heimsvísu frá ári til árs. Ef við tölum fyrst og fremst um skaðaminnkun eru til skýrslur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun sem varða þau mál og mikilvægi þess að horfa frekar til stuðnings við þá sem neyta fíkniefna en refsinganálgunar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hjálpar okkur líka með því að setja þetta í enn þá stærra samhengi, í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og segja að 3. markmiðið, sem snýst um heilsu og vellíðan, og það 16., sem snýst um frið og réttlæti, fangi hvort um sig hugmyndafræði skaðaminnkunar. Það er þaðan sem þessi hugmyndafræði sprettur, hún snýst um fordómalausa mannúð en ekki dilkadrátt og ákvarðanir um hvað teljist ásættanleg hegðun og hvað ekki.

Skaðaminnkun á rætur að rekja í lýðheilsuhugsjóninni, þ.e. að við viljum fyrst og fremst draga úr þeim félagslegu og líkamlegu og heilsufarslegu áhrifum sem ýmiss konar hegðun leiðir af sér, ýmiss konar val fólks eða hópa þegar kemur að lifnaðarháttum eða lífsstíl. Það gerir líka kröfur til samfélags um það að hafa meira þol gagnvart hegðun sem í einhverju samhengi telst ekki ásættanleg, að samfélagið segi sem svo: Það eru allir undir þegar við erum að tala um að bæta líðan og lengja líf. Það eru ekki bara þeir sem iðka þá lifnaðarhætti sem eru okkur þóknanlegir. Það skiptir gríðarlegu máli að sú hugsun sé undir.

En það eru fleiri þættir. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi að hann myndi helst vilja sjá afglæpavæðinguna í þessari umferð og hv. velferðarnefnd fær það mál væntanlega líka til skoðunar. Það eru fleiri þættir sem ná undir regnhlíf skaðaminnkunar, ef svo má að orði komast, til að mynda sú mikilvæga umræða sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir snerti aðeins á, sem er að eyða staðalmyndum, þ.e. fara frá því að tala um hóp þeirra sem nota fíkniefni á einn eða annan hátt, hvort sem það er gert í gegnum sprautur eða með öðrum hætti, með einum merkimiða og tala um okkur og svo þau. Það er partur af skaðaminnkunarhugmyndafræðinni að hætta því vegna þess að það gildir um þann hóp sem notar fíkniefni af þessu tagi eins og aðra hópa sem eru því miður jaðarsettir í samfélaginu, eins og kemur fram í frumvarpinu, að við eigum ekki að fjalla um málefni þeirra án þess að hafa þau með í ráðum. Öll þessi pólitíska og félagslega aðgreining leiðir til rangra niðurstaðna. Með því að eiga samtöl og samskipti við þá sem velja þann lífsstíl eða drógust inn í hann á einhverjum tímapunkti, vilja fara út úr honum eða ekki, erum við að ná betri niðurstöðu að því er varðar þjónustu við þann hóp og þá einstaklinga.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi leit Norðmanna að svarinu við stóru neysluskammtaspurningunni. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, Norðmenn eru ekki búnir að gefast upp. En þeir eru í sömu klemmu og við erum. Hér hefur líka verið nefnt hvernig við ættum að gera það. Ættum við að vera með lista yfir tiltekin efni? Hvaða mælikvarðar yrðu notaðir þar? Eða ættum við einfaldlega, eins og hv. þingmaður nefndi, að láta dómstóla skera úr um það á hverjum tíma? Værum við kannski á betri leið ef við færum einhverja slíka leið sem sumar þjóðir í kringum okkur hafa farið, að það sé gagnkvæmur skilningur sveitarfélags og lögreglu á viðkomandi stað að þeir sem fara um með skammt til daglegra nota í fórum sínum séu varðir fyrir inngripum? Það er gríðarlega flókið vegna þess að hvenær er eitthvað bannað og hvenær er það ekki? Lögreglan hefur gert athugasemdir við þessa umræðu en hefur líka sagt að um þetta þurfi þá að vera búið tryggilega. Ég vil ekki gefast upp fyrir því að hægt sé að gera það vegna þess að við erum ekki ein, við erum ekki eyland að reyna þetta á Íslandi. Það hafa þjóðir gert þetta og það hefur tekist og það hefur gengið vel. Það sem er mikilvægast af öllu er að starfsemi neyslurýma sýnir fólki virðingu og bjargar lífum. Það er grundvallaratriði. Ef það er ekki verkefni heilbrigðs samfélags að bjarga lífum veit ég ekki hver á að gera það.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem komu upp í umræðunni, eins og t.d. umræðuna um Naloxone sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi. Í fyrra frumvarpinu sem var til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd á síðasta þingi var tiltekið í greinargerðinni að starfsmönnum yrði kennt að nota Naloxone við ofskömmtum. Í núverandi frumvarpi er talað víðar og talað um lyf við ofneyslu ávana- og fíkniefna því að það kann að vera að um sé að ræða fleiri tegundir af lyfjum. Naloxone, eða annað efni sem er sambærilegt, er ekki hættulegt lyf. Skammvinn áhrif eru að brúa bilið þar til sjúkrabíll kemur ef lyfið er notað utan sjúkrahúss. Í dag er þetta undanþágulyf sem er komið með markaðsleyfi en hefur ekki verið markaðssett enn þá. Það er væntanlegt á næstu mánuðum, svo að þingið sé upplýst um það.

Mig langar líka að nefna það sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson nefndi um fólk yngra en 18 ára. Við sjáum fyrir okkur að ráðgjöf í neyslurýmum ætti að grípa þetta fólk. Við gerum ráð fyrir því að starfsfólk innan neyslurýma sé bæði fólk með heilbrigðismenntun og fólk sem er meira tengt félagsþjónustu sveitarfélags. Við gerum ráð fyrir því að ráðgjöfin ætti að grípa það fólk en við verðum líka að muna að barnaverndarlögin gilda alltaf. Þau gilda einnig þarna. Það þýðir að tilkynningarskylda hvílir á öllum þar og hana ber að virða. Það liggur fyrir. Sjónarmið sem hafa komið fram frá Frú Ragnheiði eru að það sé betra að leiðbeina viðkomandi en að þau komi sér í hættu með því að sprauta sig utan neyslurýmis. Þetta er auðvitað álitamál og horft er á málin frá mismunandi hliðum og reynslan verður væntanlega að leiða það í ljós.

Hér hefur líka verið rætt um sprautubox og hreinan búnað. Nú er það þannig að þetta er í raun og veru aðeins afhent á vettvangi Frú Ragnheiðar. Það er ekki verið að afhenda þessi box í apótekum eða á heilsugæslustöðvum, eins og mér þætti full ástæða til að gera. Það er eitthvað í það að við náum því markmiði og þeirri niðurstöðu. En aftur á móti er tekið við notuðum búnaði, svo sem sprautubúnaði í kókflöskum eða einhverjum slíkum hirslum, ef svo má að orði komast, í apótekum. Við höfum upplýsingar um að það sé leið sem er notuð. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt upp á öryggissjónarmið í þeim málum almennt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa lokaræðu mína lengri en ég sé að það eru einhverjir sem óska eftir andsvörum við mig í henni. En ég vil samt segja það hér að ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram um að þetta er mikilvægt skref. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka því stjórnmálafólki sem hafði kjark í að vekja máls á þessu á sínum tíma, bæði þeim Pírötum sem hafa vakið máls á því á Alþingi og hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrir að hafa haft kjark í að grípa þann bolta og halda vinnunni áfram vegna þess að það þarf fólk sem hefur ekki aðeins kjarkinn í að setja mál á dagskrá heldur líka að hlusta og halda málunum áfram.

Ég vil leyfa mér að segja að hugmyndafræði skaðaminnkunar hlaut að reka á fjörur íslenska þingsins á einhverjum tímapunkti. Það hlaut að gerast einhvern tíma vegna þess að þetta er partur af því sem einkennir alþjóðlega umræðu um þau mál. Hins vegar vil ég segja að það gerðist á nákvæmlega þessum tímapunkti og með þessum aðdraganda, það var stjórnarandstöðuflokkur sem gerði það og ráðherra í ríkisstjórn á sínum tíma sem bar keflið áfram. Það gerði það að verkum, trúi ég, að mér sýnist að við séum með nokkuð sögulega samstöðu um að þetta sé mikilvægt og gott mál sem á einhverjum öðrum tíma gæti verið mál sem væri tekist á um. Mér sýnist ætla að takast góð sátt um það að byggja upp lögmætt og vel útbúið úrræði sem einkennist af mannúð og er til þess ætlað að bera virðingu fyrir fólki og bjarga mannslífum.