150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góða umræðu og fyrir góða lokaræðu um þetta mál. Mig langaði að spyrja um tvennt í andsvörum mínum. Í fyrsta lagi með Naloxone. Ég heyri á hæstv. ráðherra að það stendur til að koma þessu í aðgengilegra form. Nú veit ég ekki almennilega hvernig á að haga þessu, hvort þetta verður lyfseðilsskylt lyf eða hvort aðgengið að því verði almennt og gott og einfalt fyrir notendur og aðstandendur þeirra að nálgast efnið. Það er alveg ljóst að t.d. í Skotlandi er talið að tekist hafi að koma í veg fyrir a.m.k. 500 dauðsföll af völdum ofskömmtunar vegna Taktu Naloxone heim herferðar sem farið var af stað með þar í landi þar sem skoskur almenningur fékk aðgengi að Naloxone og þjálfun í notkun þess. Auk Skotlands er aðgengi almennings að Naloxone nokkuð gott í 30 ríkjum Bandaríkjanna, þó nokkrum borgum Kanada og einnig í Ástralíu. Innan Evrópu er aðgengi almennings að Naloxone hins vegar mjög takmarkað. Við vitum eftir sem áður að það getur bjargað mannslífum. Það getur virkilega skipt sköpum þegar kemur að ofskömmtun og þess vegna vildi ég nýta þetta fyrsta andsvar til að spyrja út í það. Stendur til að gera það almennt aðgengilegt eða þarf ávísun læknis eða verður það jafnvel einungis í höndum heilbrigðisstarfsmanna?