150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

lögreglulög.

68. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nýta tækifærið og lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Það var fyrst lagt fram á 144. þingi eins og hv. þingmaður fór yfir, þá af varaþingmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ári seinna var það lagt fram af þingmanni VG og reyndar í það skipti var sá sem hér stendur meðflutningsmaður á því máli, en í þetta skipti af þingflokki Miðflokksins. Mig langar sérstaklega til að vekja athygli á því sem kemur fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands við meðferð málsins á 144. þingi en þar segir, með leyfi forseta:

„Mannréttindaskrifstofa Íslands styður frumvarpið og telur það í samræmi við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem og 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sú grein tiltekur jafnframt verkfallsréttinn sérstaklega.“

Þetta er ekki einvörðungu spurning um það hvort maður telur heppilegt fyrir lögreglumenn sjálfa að hafa verkfallsréttinn. Þetta snýst líka um það hvort við ætlum að viðhalda því ástandi í raun og veru að lögreglumenn séu sérstaklega sviptir einum af þeim réttindum sem tilheyra félagafrelsinu. Ég tel að það sé einfaldlega ekki nægt tilefni til þess ef verkfallsrétturinn á yfir höfuð að vera til staðar fyrir stéttir sem sinna mikilvægum skyldum. En auðvitað verðum við líka að hafa í huga, eins og hv. þingmaður fór yfir rétt áðan, að það er samt gert ráð fyrir því að það sé ákveðin lágmarksöryggisgæsla til staðar, eins og maður sér reyndar alltaf í bakgrunninum þegar þetta mál ber á góma.

Það er annað sem mig langar sérstaklega til að nefna hérna vegna þess að sá sem hér stendur og fleiri í þingflokki hans hafa í gegnum tíðina mikið barist fyrir sjálfstæðu eftirliti með störfum og starfsháttum lögreglu og kannski upplifa sumir lögreglumenn Pírata þannig að þeir standi einhvern veginn andspænis hagsmunum lögreglumanna, en það er þvert á móti. Metnaður okkar fyrir því að borgararéttindi almennings séu virt í hvívetna er alls ekki grundvallaður á því að það séu einhverjar stofnanir í samfélaginu eins og lögreglan sem séu vondar við fólk eða séu í eðli sínu þannig gerðar að þær brjóti á borgararéttindum fólks. Það er ekki þannig. Lögreglumenn eru venjulegt fólk í ákveðinni vinnu og það ágæta fólk er háð sömu takmörkunum og við hin. Fólk gerir mistök og það fær stundum ekki næga leiðsögn, hefur ekki búnaðinn eða aðstæðurnar sem það þarf til að sinna hlutverki sínu á þann hátt sem maður myndi helst vilja á Alþingi. Hluti af því er vissulega skortur á sjálfstæðu eftirliti með lögreglu en hluti af því er líka bág kjör, fámenni, undirþjálfun, sögulega alla vega, og fleira í þeim dúr sem plagar lögregluna og hefur neikvæð áhrif á réttindi borgaranna.

Það segir sig sjálft að illa launaður lögreglumaður þarf að hafa aðra hvata til þess að sinna starfi sínu af eldmóði og metnaði ef hann ætlar að vera lögreglumaður lengi heldur en sá sem er vel launaður. Þó að maður hefði aldrei á móti því að lögreglumaður væri með slíkan metnað þá eigum við samt sem áður að geta haft lögregluna þannig að lögreglumenn séu bara þokkalega sáttir við sinn hlut. Ég fæ ekki séð að þeir geti verið það miðað við núverandi ástand, ekki síst vegna launanna sem eru of lág og það er almennt, finnst mér, lítill skilningur sýndur því að til þess að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu án þess að beita aðferðum sem við viljum helst forðast þarf að vera nógu mikið af lögreglumönnum og þeir þurfa að vera á nógu góðum launum. Þeir þurfa að upplifa virðingu í starfi sínu og stolt og verkfallsrétturinn er óhjákvæmilega hluti af því. Ef lögreglumenn eru ekki nógu vel launaðir, ef það er ekki nógu vel staðið að aðstæðum þeirra, kemur það ekki aðeins niður á hagsmunum þeirra sem einstaklinga heldur kemur það niður á starfi lögreglu almennt, alveg eins og alls staðar annars staðar og ætti engan að undra. Þannig er það, ef við viljum að eitthvað gangi vel þurfum við að sýna þá virðingu að fjármagna það almennilega og það þýðir almennileg laun fyrir almennileg störf.

Þetta er fyrir utan það að lögreglustarfið er mjög vanþakklátt starf. Ég hef þurft að hlusta á nokkra pistla um það, sem ég skal alveg hlusta á aftur og aftur ef þess þarf, í gegnum tíðina verandi sífellt að kvarta undan skorti á eftirliti með lögreglu. Lögreglumenn benda á með réttu að þetta er mjög krefjandi starf og ósanngjarnt starf á köflum. Þeir fara almennt ekki sjálfir að æpa á torgum um nákvæmlega hvað það er sem þeir upplifa í starfi sínu en margt af því er langt umfram það sem ég held að hinn almenni borgari, hinn almenni þingmaður, átti sig á. Fyrir það ber að borga, virðulegi forseti, með peningum og með búnaði sem þarf til að lögreglumenn geti sinnt störfum sínum jafn vel og þeir vilja sjálfir.

Ofan á þetta er það ekki reynsla mín að yfirvöld almennt sýni þeim sjónarmiðum mikinn skilning að það þurfi að fjármagna mikilvægar en lágt launaðar stéttir almennilega. Þetta á vissulega við fleiri stéttir en lögreglumenn eins og við ættum að þekkja núorðið. En þess vegna þarf að vera mótvægi. Þegar allt kemur til alls snýst þetta mál um það sama og málið um sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu, sama og lýðræðið sjálft, það sama og fjölmiðlar gagnvart stjórnmálamönnum, þ.e. um aðhald og mótvægi. Valdakerfin okkar séu sett upp þannig að ekkert þeirra sé einrátt og ekkert þeirra sé í þeirri stöðu að það geti einfaldlega valtað yfir aðra. Leiðin sem hefur verið fundin upp er óþægileg og vond; verkfallsrétturinn. Hann er til þess að valdefla þá sem annars eru alltaf í stöðu gagnvart yfirvaldi sem þeir ráða ekkert við — ég er að leita að íslenska orðinu fyrir „underdog“, virðulegi forseti — í samfélagi þar sem við vitum að kjarabarátta byggir á endanum á því að sá sem veitir launin hafi ekki allt valdið heldur að til staðar sé þessi réttur sem er neyðarúrræði en þó til staðar. Við verðum að sýna að við trúum því að það eigi líka við mikilvægustu stéttina sem við megum einmitt ekki missa í verkfall, eins og lögregluna. Það ætti í raun og veru að hvetja okkur til að styðja þetta mál. Bara tilhugsunin um að lögreglumenn fari í verkfall finnst mér ansi hryllileg og hún á að vera það vegna þess að þessi stétt á að vera vel launuð, hún á að upplifa það að hún njóti virðingar og trausts og fái til þess það sem hún þarf til að geta staðið undir því. Þar á meðal eru almennileg laun og verkfallsrétturinn er þáttur í því að tryggja getu stéttarinnar til að eiga við viðsemjandann, sem vitaskuld er ríkið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég styð þetta mál og þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að leggja það fram. Ég vona að það nái í gegn. Mér finnst í rauninni sjálfsagt að það nái í gegn og fagna því sérstaklega að það sé núna komið aftur og lengra en það hefur náð upp á síðkastið því að við síðustu framlagningar hefur það ekki náð langt. Það er miður. Þetta er eitthvað sem ég vil endilega sjá renna í gegnum þingið í þetta sinn.