150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

lögreglulög.

68. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp í lokin til að þakka fyrir þá umræðu sem við áttum hér, ég og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, sem mér heyrðist vera eindreginn stuðningsmaður frumvarpsins og ég fagna því. Mér láðist að geta þess í ræðu minni að hann var auðvitað meðflutningsmaður á frumvarpinu þegar það var lagt fram á 145. þingi, ef ég man þetta rétt, auk þess sem þingmenn Vinstri grænna lögðu það fram í tvígang, þar á meðal núverandi hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og meðflutningsmaður á frumvarpinu var einnig núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir.

Þegar maður lítur yfir umræður sem áttu sér stað á 144. þingi kemur í ljós að frumvarpið naut víðtæks stuðnings þingmanna sem nú eru í stjórn, eins og Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna sem tóku til máls undir þeirri umræðu, þannig að ég get ekki séð betur en að þetta frumvarp, þó að meðflutningsmenn með mér séu bara úr einum þingflokki og ekki fleiri, njóti í raun og veru, trúi ég, víðtæks stuðnings. Þetta er einfalt mál, bara að fella niður eina grein þar sem lögreglumönnunum er bannað að fara í verkfall. Það er ekki flókið. Það eina sem þarf er vilji og viljinn hefur komið fram úr öllum áttum, bæði frá vinstri hlið stjórnmálanna og hægri hliðinni og nú heyri ég að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er sammála um að veita lögreglumönnum þetta vopn til að bæta sín kjör. Ég er afskaplega ánægður að heyra að hann telur að lögreglumenn eigi að vera vel launaðir, hann rökstuddi það vel í sinni ræðu. Hann telur að lögreglumenn eigi að njóta trausts og virðingar og ég er sammála honum í því.

Það er gjörbreytt umhverfi í þjóðfélaginu í dag en fyrir kannski 30–50 árum þannig að lögreglustarfið er allt annað núna en á miðri síðustu öld, miklu meiri kröfur, miklu meiri tækjabúnaður, miklu erfiðari og flóknari viðfangsefni. Þetta er allt annað umhverfi. Við verðum að styðja við bakið á þessari stétt sem er svo mikilvæg í samfélaginu. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þetta er mjög mikilvægt starf. Við erum að veita þeim góðan stuðning, lögreglumönnum og lögreglustéttinni, og þetta er eitt skref í því. Þeir hafa kvartað yfir þessu árum saman en það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra krafna. Ég nefndi dæmi um það. Ég fór yfir söguna í grófum dráttum, hvernig til hefur tekist síðustu 30 árin. Það hefur gengið erfiðlega að þeirra mati og þeir krefjast þess, og gerðu það líka þegar frumvarpið var lagt fram 2014, studdu það að fá þennan rétt til baka.

Það er kannski óþarfi að fara yfir það en starf lögreglunnar er erfitt starf. Þetta er vaktavinna. Lögreglumenn vita aldrei hvað bíður þeirra þegar þeir fara í útkall, vita aldrei hvernig aðstæður eru á þeim stað sem þeir eru að fara á. Það eru fáar stéttir sem búa við þá óvissu lögreglumanna að vita aldrei nokkurn tímann hvað mætir þeim þegar þeir ganga í næsta útkall. Og þeir bera ábyrgð á því, þeir eru yfirleitt fyrstir á vettvang og þurfa að tryggja vettvang og kalla aðra til aðstoðar ef þess þarf og taka á málunum. Við þurfum að styðja við lögregluna og veita lögreglumönnum góðan aðbúnað, góð laun og menntun.

Ég á þá von í brjósti að þegar málið fer fyrir allsherjar- og menntamálanefnd fái það afgreiðslu, að leitað verði umsagna og málið afgreitt úr nefnd og við fáum það hingað aftur í 2. umr. síðar í vetur. Ég óska þess að málið fari til allsherjar- og menntamálanefndar.