150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

Landsvirkjun.

[15:12]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Til að svara fyrst fyrri hluta spurningarinnar verð ég bara að gefa mér rými til að fletta upp viðkomandi löggjöf og viðkomandi ákvæði og lesa það í gegn, túlka það og hafa á því skoðun. Ég var ekki með það fyrir framan mig í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Varðandi síðari hluta spurningarinnar, hvort mér finnist eðlilegt að upplýsingalög gildi ekki um Landsvirkjun sem opinbert hlutafélag, er það auðvitað það sem er í gildandi lögum og fyrir því eru ýmis rök. Ef við ætlum að breyta þeirri löggjöf þarf að greina og hugsa til enda hvaða áhrif það hefur. Þetta er auðvitað risastórt fyrirtæki á stórum markaði sem veltir mjög miklum fjármunum, gerir stóra samninga við stór fyrirtæki sem í dag eru enn þannig að þeir samningar eru ekki birtir. Það er auðvitað efni í aðra umræðu en ég hef komið því á framfæri áður að mér finnist skorta gagnsæi í þeim samningum og tel að við gætum komist lengra í umræðu um þróun á orkumarkaði og öðru slíku ef það væri fyrir hendi.

Ég hef ekki lesið svar fjármálaráðherra eða ráðuneytis hans við fyrirspurn hv. þingmanns um þetta. Það liggur fyrir að Landsvirkjun hefur skoðað ýmislegt og farið í einhverja vinnu varðandi möguleika á sæstreng, þ.e. kannað kosti þess, galla og fýsileika. Það hafa stjórnvöld áður gert. Það setti formaður Miðflokksins, þáverandi forsætisráðherra, sjálfur á dagskrá af miklu meiri þunga en Landsvirkjun hefur gert, að skoða fýsileika þess að hingað verði lagður sæstrengur. Eins og við höfum áður rætt eru slíkar ákvarðanir auðvitað aldrei teknar inni í Landsvirkjun og sú umræða verður nægilega gagnsæ ef einhvern tímann kemur að því hér í þessum sal.