150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að beina sjónum sérstaklega að því sem varðar áhrif samgöngusáttmálans á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til lengri og skemmri tíma. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins eru markmið um breyttar ferðavenjur árið 2040 þau að hlutverk gangandi og hjólandi aukist úr 20% í 30%, að hlutur strætós, þar með talið borgarlínu, aukist úr 4% allra ferða upp í 12% og að hlutur ferða í fólksbíl minnki úr 76% í 58%. Þetta er töluverð breyting en engu að síður er heildarmyndin sem blasir við sú að takist að breyta ferðavenjum á þennan hátt, að fleiri noti almenningssamgöngur, hjóli eða gangi, eykst bílaumferð fram til ársins 2033 um 24%. Verði hins vegar ekkert að gert, takist ekki að koma til móts við óskir fólks um raunhæfa möguleika á breyttum ferðavenjum, um frelsi til að velja mismunandi samgönguform, mun bílaumferð aukast á þessum 14 árum um allt að 40%. Þeir sem af einhverjum ástæðum kjósa að tala niður viðleitni til að auka frelsi borgarbúa þegar kemur að samgöngum og hrópa hátt um aðför að fjölskyldubílnum, ef ég man nýjasta slagorðið rétt, eru sem sagt að missa sig yfir því að hér muni, ef góð áform ná fram að ganga, bílaumferð aðeins aukast um 24% á næstu 14 árum.

Gangi samgöngusáttmálinn eftir, herra forseti, er ljóst að borgarbúar og aðrir sem hér fara um götur verða varir við umtalsvert rask á næstu árum meðan á framkvæmdum stendur. Það er einfaldlega óhjákvæmilegt og verður verðugt verkefni fyrir hlutaðeigandi að vanda þar vel til verka og halda óþægindum fyrir daglegt líf fólks í lágmarki, m.a. með góðu upplýsingaflæði og gegnsæi og síðast en ekki síst með því að halda tímaáætlanir. Hér er ég að tala bæði um ábyrgð sveitarstjórna og ríkisins. Þessir aðilar og undirstofnanir þeirra þurfa að vinna saman að því að tryggja hagsmuni almennings sem hér býr og starfar, þeirra sem reka fyrirtæki og sjá um þjónustu, hagsmuni (Forseti hringir.) annarra sem eiga erindi um sem og ferðamanna allra. Þetta er mikil ábyrgð sem er nauðsynlegt að við stöndum undir.