150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

losun kolefnis.

[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Umhverfisverndarsamtökin Extinction Rebellion svokölluðu hafa vakið mikla athygli víða fyrir öfgakennda framgöngu og oft og tíðum mjög öfgakenndan málflutning og stefnu. Hæstv. ráðherra mun hafa lýst yfir stuðningi við þessi samtök en styður hann markmið samtakanna, m.a. meginmarkmiðið um að nettólosun gróðurhúsalofttegunda skuli hafa verið hætt í heiminum árið 2025? Og styður hæstv. ráðherra þær aðgerðir sem þyrfti að ráðast í til að ná því markmiði? Þessi samtök hafa talað fyrir aðgerðum sem hefðu gríðarleg áhrif á daglegt líf fólks og sérstaklega tekjulægri hópa, myndu í raun færa okkur áratugi aftur í tímann hvað varðar jafnræði, möguleika fólks á að komast leiðar sinnar, geta átt bíl og geta ferðast. Ef farið yrði að kröfu samtakanna, um að stöðva nettólosun fyrir árið 2025, myndi það leiða til langstærstu manngerðu kreppu heimssögunnar. Styður hæstv. ráðherra þessi markmið og ef svo er hvernig sér hann þá fyrir sér að þeim verði náð?