150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

leiðrétting á kjörum öryrkja.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður veit að það sagði ég ekki. Ég sagði ekki að nóg hefði verið gert því svo sannarlega eru enn þá stórir hópar í okkar samfélagi sem við getum gert betur við og öryrkjar eru þar á meðal. En ég vil samt minna hv. þingmann á það að nú þegar hefur ýmislegt verið gert. Ég nefndi ekki í mínu fyrra svari þá staðreynd að á miðju þessu ári var ráðist í að draga úr skerðingum á nákvæmlega þennan hóp sem hefur verið stærsta baráttumál hans um langt skeið, þ.e. króna á móti krónu skerðingin, og 2,9 milljörðum varið í það verkefni. Við verðum líka að taka það með í reikninginn sem gert hefur verið. Þar með er ég ekki að segja að ekki megi gera betur gagnvart öryrkjum.

Hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur boðað frumvarp eftir áramót um breytingar á þessu kerfi og ég held að við þurfum að horfast í augu við að þar þarf líka að gera betur. Þar veit ég að við hv. þingmaður erum sammála en við verðum um leið að hafa það í huga sem þegar nýtist þessum hópi, sem er margt.