150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra stóð um helgina fyrir rökræðukönnun þar sem endurskoðun nokkurra afmarkaðra ákvæða stjórnarskrárinnar var rædd en það var Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem hélt utan um framkvæmdina. Í kynningarmyndbandi um rökræðukönnunina segir Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Sá þrýstingur sem kemur með því að vera með háskólasamfélagið inni í þessu, vera með fræðilega nálgun á hlutina, er það mikill að mér finnst mjög ótrúlegt ef við eigum eftir að sjá stjórnvöld sniðganga niðurstöðurnar sem koma út úr þessu.“

Forseti. Árið 2010 var haldinn þjóðfundur sem fjallaði um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á þjóðfundinum kom saman þverskurður íslensks samfélags, 950 manns af landinu öllu frá 18 ára til 91 árs og kynjaskiptingin nánast jöfn. Í kjölfar þjóðfundanna var stjórnlagaráð kjörið og því falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá Íslands sem skyldu lagðar fram í formi frumvarps. Stjórnlagaráð hittist á 19 ráðsfundum, hélt 135 nefndarfundi og 28 stjórnarfundi. Þar voru mótuð heildstæð drög að nýrri stjórnarskrá sem borin voru undir þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Þar sögðu tveir þriðju hlutar kjósenda að tillögur stjórnlagaráðs ættu að verða lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Það var fyrir rúmum sjö árum.

Í ljósi þess að stjórnvöld hafa gjörsamlega hunsað niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá sem var samin í „víðfeðmasta og lýðræðislegasta starfi að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina“, svo að vitnað sé til orða Vigdísar Finnbogadóttur, af hverju á almenningur að hafa einhverja trú á því að aðkoma Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands verði einhvers konar vendipunktur? Hvað telur hæstv. forsætisráðherra að muni breytast með tveggja daga rökræðukönnun þegar áralangt ferli sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu dugði ekki til?