150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skimun fyrir krabbameini.

[15:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Nú liggja fyrir og verða ræddar m.a. hér í dag tillögur ríkisstjórnarinnar um fjárauka þar sem framlög til Landspítalans eru aukin til að bregðast við hallarekstri. En það dugar ekki til og boðaður hefur verið niðurskurður á spítalanum sem að einhverju leyti er þegar hafinn. Ég velti þessu upp hér vegna þess að það hefur verið nokkuð fjallað um þá ákvörðun hæstv. heilbrigðisráðherra að færa skimanir fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum frá Krabbameinsfélagi Íslands og yfir til ríkisins, að miklu leyti yfir til Landspítalans. Aðstandendur Krabbameinsfélagsins hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessu og ekki að ástæðulausu. Fleiri hafa komið til.

Það er um 20.000 skimanir á ári sem við erum að ræða hér sem krefjast sérstakrar aðstöðu og sérhæfðs mannafla. Ráðuneytið segir sjálft að ekki hafi verið ákveðið hversu miklir fjármunir fylgi eða hversu hátt gjald verður fyrir skimun. Sama er að segja um boðunarkerfið og hvar frumurannsóknir munu fara fram. Þá hefur réttilega verið bent á að Landspítalinn er háskólasjúkrahús og ber samkvæmt lögum að sinna mjög sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu. Það er ekkert í lögum um skyldu spítalans til að sinna forvörnum. Ofan á allt saman hefur Krabbameinsfélagið sjálft á meðan þessi starfsemi hefur verið á þeirra höndum greitt ríflega 50 milljónir á ári með rekstrinum. Það er um 10% af því sem þetta hefur kostað. Það sem skiptir kannski lykilmáli hér og er ekki síst ástæðan fyrir því að ég beini þessari fyrirspurn til ráðherra er að við höfum ekkert sérstaklega jákvæða reynslu af sambærilegum tilflutningi. Samhliða áherslu ríkisstjórnarinnar á að færa verkefni einkaaðila yfir til ríkisins, þar með talið Landspítalans, hefur halli spítalans stóraukist.

Ég spyr því ráðherra: Hefur hann látið framkvæma kostnaðarmat á flutningi starfsemi Krabbameinsfélagsins yfir til ríkisins? Hvernig, ef á einhvern hátt, gerir ráðherra ráð fyrir því að þjónustan við notendur batni við þennan flutning? Svo ég umorði spurninguna: Hver er væntur ávinningur (Forseti hringir.) þess að færa þessa starfsemi yfir, sérstaklega í ljósi þess að flutningurinn fyrir um þremur árum, þegar fyrri hluti starfseminnar var færður frá Krabbameinsfélaginu yfir til ríkis, gerði ekkert annað en að lengja biðlista?