150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skimun fyrir krabbameini.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrirkomulag skimunar á Íslandi hefur verið til skoðunar um allnokkurt skeið. Skimunarráði var falið í samræmi við krabbameinsáætlun að gera tillögur um fyrirkomulag skimunar til embættis landlæknis. Embættið gerði síðan þær tillögur að sínum og fór yfir þær með mér og ég féllst á þær tillögur. Þar var til að mynda talað um að leghálskrabbameinsskoðanir flyttust til heilsugæslunnar og hafinn er undirbúningur að þeirri breytingu. Hins vegar bárust fagleg rök frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem umræddar stofnanir lögðu fram með minnisblaði til mín með rökstuðningi um að hópleit brjóstakrabbameins yrði rekin samhliða því sem kallað er klínísk myndgreiningarstarfsemi hvað varðar krabbameinsleit í brjóstum. Á brjóstamiðstöð Landspítalans munu koma saman sérgreinar og faghópar til að tryggja bestu meðferð við brjóstakrabbameini. Evrópsk samtök sérfræðinga í brjóstakrabbameini hafa lagt fram leiðbeiningar fyrir slíkar miðstöðvar og mæla með því að hópleit sé innan eða í náinni samvinnu við brjóstamiðstöð og að röntgenlæknir sinni bæði hópleit og klínískum brjóstarannsóknum. Þannig að það eru fyrst og fremst fagleg rök sem mæla með þessari breytingu.

Ég vil hins vegar segja, vegna áhyggna hv. þingmanns um fjármögnun þessa, að það skiptir máli að það sé gert með góðum aðdraganda og í samstarfi við þá sem þjónustuna veita núna og að fjármagn fylgi breytingum og aukinni starfsemi á Landspítala. Þess vegna hyggst ég sjá til þess að sú aukna starfsemi verði fjármögnuð með viðunandi hætti.