150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárdal.

[15:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hjarta og lungu Íslands er oft sagt vera miðhálendið. Við höfum oft rætt það hér og get ég tekið undir það en nú ætla ég að tala um lungu höfuðborgarinnar, Elliðaárdalinn, sem er náttúru- og útivistarperla og eitt stærsta græna svæði höfuðborgarinnar. Náttúrufar í dalnum er einstakt, jarðsagan með setlögin, Leitahraunið, fossana, dæmi um 4.500 ára gamalt hraun. Laxveiði hefur verið stunduð þarna svo lengi sem elstu menn muna, líklega frá því að byggð þróaðist og er það einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg, held ég.

Nú lesum við síðast í Fréttablaðinu í morgun að á þessu svæði, sem er sagt vera friðlýst af borgaryfirvöldum en þó einungis með hverfisvernd, eigi að ráðstafa allt að 4.500 m² undir gróðurhvelfingu, sem er vissulega grænt verkefni. En það er líka gert ráð fyrir verslun og annarri starfsemi þar, eins og kom fram í Fréttablaðinu í morgun. Grænt verkefni er jákvætt og ég styð heils hugar þessa gróðurhvelfingu. En er rétt að setja hana akkúrat á grænt svæði og ganga á þau takmörkuðu gæði í höfuðborginni sem græn svæði eru? Ætti hún ekki að vera frekar þar sem byggð hefur verið þétt og þaðan sem lengra er í önnur slík svæði? Þess vegna vil ég spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hvort víðerni innan höfuðborgar séu ekki mikilvæg og hafi ekki gríðarlegt verndargildi, mikilvæg bæði fyrir útivist og lýðheilsu, út frá náttúruvernd, líffræðilegum fjölbreytileika og öðru. Þurfum við ekki að fara varlega þegar við umgöngumst og skipuleggjum svona mikilvæg svæði eins og Elliðaárdalinn undir bílastæði, verslunarrekstur og annað slíkt?