150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárdal.

[15:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Jú, það er alveg ljóst að græn svæði eru grundvallaratriði í þéttbýli, ég tek undir það með þingmanninum. Það er þarna sem fólk kemst í snertingu við náttúruna og ég held að þessi svæði stuðli klárlega að betri lýðheilsu. Það er reyndar svo að rannsóknir í sálfræði — eða umhverfissálfræði — sýna að þegar fólk fer út í náttúruna og ekki síður náttúru á byggðum svæðum hefur það róandi og heilandi áhrif, ef svo má að orði komast. Þannig að það skiptir miklu máli. Hafflöturinn skiptir líka máli ef út í það er farið og það er svo sannarlega nóg af honum hér í kringum Reykjavík.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem núna er verið að skoða í vinnu við landsskipulagsstefnu, þ.e. hvernig beita megi skipulagi í þágu lýðheilsu. Slíkt hefur auðvitað með þessi grænu svæði gera og aðgang að þeim. Þau eru allmörg hér í Reykjavík. Við sem hér búum og fleiri getum notið þeirra í okkar daglega lífi. Þar má nefna svæði sem eru allmikið manngerð eins og Laugardalurinn og Klambratúnið og svo önnur svæði, líkt og hv. þingmaður nefndi hér áðan. Við getum farið upp í Heiðmörk eða inn í Elliðaárdal og víðar þar sem eru svæði sem eru virkilega mikilvæg fyrir útivist og lýðheilsu fólks.

Ég tek undir það með þingmanninum að það þarf að skipuleggja þessi svæði vel. Ég tek það þó fram með Elliðaárdalinn að hann nýtur ekki friðlýsingar. Hann er hverfisverndaður líkt og kom fram í máli þingmannsins. Til að hægt sé að fara í eitthvað slíkt þarf að koma til annaðhvort að svæðið sé á áætlunum Alþingis eða að vilji sveitarstjórnar og landeiganda sé fyrir hendi.