150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárdal.

[15:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek heils hugar undir með honum um mikilvægi þessara grænu svæða og jákvæðra áhrifa þeirra. Til dæmis hefur græna svæðið í Elliðaárdalnum alið af sér margan lögreglumanninn en þarna hljóp maður sjálfur allar sínar raunir til að komast í gegnum Lögregluskólann. Ég held að þetta sé einmitt svæði sem við ættum að sameinast um að fengi frekara verndargildi eða setja í friðlýsingu, lyfta því frá því að vera friðlýst samkvæmt hverfisvernd yfir í hina almennu friðlýsingu samkvæmt náttúruverndarlögum því að þarna er mikið undir. Við munum ekki geta reiknað það hér til framtíðar hversu mikilvægt verður að hafa þetta stóra svæði innan borgarmarkanna sem hefur alla þessa eiginleika sem ég fór yfir áðan, laxveiðina, hraunið, hið einstaka náttúrufar og jarðsögu sem svæðið hefur að geyma, ég tala nú ekki um hinn líffræðilega fjölbreytileika sem við erum að setja á oddinn á Alþingi núna í formennsku okkar í Norðurlandaráði.