150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárdal.

[15:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess máls sérstaklega sem hér er nefnt en tek undir með hv. þingmanni að græn svæði eru gríðarlega mikilvæg fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Mér skilst að það sé mat Reykjavíkurborgar að svæðið sé ekki eitt af þeim sem sé fremst í röðinni þegar kemur að því að friðlýsa. Eins og ég nefndi áðan, ef ráðast ætti í einhverja slíka vinnu, þarf það annaðhvort að vera inni á áætlunum sem þegar hafa verið samþykktar frá þinginu eða að óskað er eftir því af landeigendum og sveitarfélögum að ráðist sé í slíkar friðlýsingar og eigum við nokkur dæmi um það núna í því friðlýsingarátaki sem á sér stað. En ég tek svo sem ekki sérstaka afstöðu til þess hvort þetta ætti að vera forgangsverkefni eða ekki en bendi á það sem borgin hefur nefnt sjálf.