150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[15:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta andsvar. Það er auðvitað hárrétt að það eru m.a. vaxtakjörin sem valda því að uppgreiðsla lánanna hefur aukist en ekki eingöngu. Það er líka bara vegna breytts munsturs og þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur — þær heimildir sem hann hefur til lánveitinga hafa verið takmarkaðar við að um sé að ræða félagslegar aðstæður eða einhvers konar markaðsbrest. Vextir sjóðsins eru bundnir við síðustu skuldabréfaútgáfu. Sjóðurinn hefur ekki þarfnast meira fjármagns, þvert á móti, og er bundinn við skuldabréfaútgáfu sem var síðast 2012 þegar vextir voru mjög háir, þannig að það hefur þessi áhrif. En það breytist með þessu frumvarpi hvaða vextir verða á þeim lánveitingum sem eftir eru.

Varðandi þá sem eru enn með lán hjá sjóðnum og hafa ekki greitt þau upp er í rauninni óbreytt staða með þessu frumvarpi. Við höfum ekki fjárhagslegt svigrúm eða bolmagn til þess að gefa eftir þau uppgreiðsluákvæði sem þingmaðurinn vitnar til í fyrirspurn sinni.