150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en er kannski ekki miklu nær. Hér liggja engin gögn fyrir um hvernig rekstur sameinaðrar stofnunar myndi líta út í samanburði við rekstur þeirra tveggja stofnana sem í hlut eiga. Það hefði verið gagnlegt að sjá t.d. efnahag og aðgreiningu efnahags í fylgigögnum þessa frumvarps, ég finn því ekki stað heldur. En vandamálið þegar kemur að sameiningu stofnana hjá hinu opinbera er auðvitað að áform um hagræðingu hafa sjaldnast gengið eftir, kannski af því að þau hafa verið sett upp mjög loðið og óljóst þegar af stað er farið. Hér sýnist mér vera enn eitt dæmið um slíkt. Það er engin markmið að sjá um það hvaða hagræði eigi að hljótast af sameiningunni sem slíkri og þegar eigandinn, sá sem fer með hina fjárhagslegu ábyrgð, leggur ekki af stað með neitt slíkt markmið er ekki að vænta að árangur af því verði mikill. Þess vegna hefði ég, enn og aftur, lagt til að ráðherra gæfi (Forseti hringir.) þinginu einfaldlega betri tíma til að skoða þetta og það væri þá líka skýrari markmiðssetning þegar af stað væri haldið.