150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:03]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvallarmarkmið ríkisstjórnarinnar er að tryggja húsnæði fyrir alla og að tryggja aukinn stöðugleika í húsnæðismálum. Það er grundvallarmarkmiðið með þessu frumvarpi. Við teljum að það geti orðið ákveðinn fjárhagslegur ávinningur af þessu líka og því hef ég gert grein fyrir og kallað eftir öllum þessum myndum sem hv. þingmaður er að kalla eftir. En við teljum að m.a. með verkefnum sem Íbúðalánasjóður hefur á hendi og varða húsnæðisáætlanir og fleira slíkt og Mannvirkjastofnun þegar kemur að innleiðingu byggingargáttar sem við vorum m.a. að fjalla um á fundi með Samtökum iðnaðarins í morgun — að með auknum slagkrafti inni í þessu kerfi geti ný stofnun geti orðið hjartað í því að tryggja þann langþráða stöðugleika í húsnæðis- og mannvirkjamálum sem hv. þingmaður hefur verið að berjast fyrir allt frá því að hann var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á sínum tíma. Ég fagna því mjög að við séum að stíga þetta skref. Það verður auðvitað að vera í höndum þingnefndarinnar og þingsins hvaða ákvarðanir verða teknar um tímasetningar.

Það er af sem áður var þegar stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) hvetur til þess að málum frá ríkisstjórninni sé einfaldlega frestað. Það er alla vega ekki það sem ég hef átt að venjast frá hv. þingmanni og það er góð tilbreyting hvað þetta snertir. (ÞorstV: … vanda betur til þeirra.)