150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég hef töluverðar efasemdir um málið og get ekki stutt það vegna þess að ég tel að hér sé horft fram hjá þeim mikilvæga þætti sem Mannvirkjastofnun hefur sinnt, þ.e. öryggismálum í byggingum og í bruna- og rafmagnsmálum. Hæstv. ráðherra talar um óstöðugleika, að verið sé að stuðla að stöðugleika, og þá spyr ég nú bara: Hefur einhver óstöðugleiki ríkt í störfum Mannvirkjastofnunar, sem dæmi? Ég kannast ekki við það.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða lykilþættir í starfsemi þeirra stofnana sem á að sameina tryggja að sameiningin reynist hagkvæm faglega? Ég er að tala um faglega, hæstv. ráðherra. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig verður öryggi borgaranna betur tryggt með þessari sameiningu? Þetta er svar sem hæstv. ráðherra verður að rökstyðja. Ég sé að tíminn er að verða búinn og ég kem inn á fleiri atriði hér á eftir.