150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferðina á þessu máli. Það er gott að efla stjórnsýslu í þessum mikilvæga málaflokki sem heldur utan um 7,7% af vergri landsframleiðslu. Ég verð þó að segja að mér líst ekkert á hversu hratt ráðherra ætlar að keyra málið í gegn hér á þinginu. Málið kemur hingað inn í annarri viku nóvembermánaðar og það liggur fyrir að ef virða á hefðbundinn umsagnarfrest, sem ég tel algjörlega nauðsynlegt enda er þetta það stórt mál, ætti honum að ljúka 4. desember sem er u.þ.b. tíu dögum áður en þinglok verða fyrir jól. Það er alveg ljóst, hæstv. ráðherra, að tímasetningar munu a.m.k. ekki standast. Þá langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hverjir hafi verið í nefndinni. Komu fulltrúar Íbúðalánasjóðs og fulltrúar Mannvirkjastofnunar að vinnu nefndarinnar?