150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í undirbúningsnefnd sem nú er starfandi, svo að ég svari fyrri spurningunni úr fyrra andsvari, eru fulltrúar frá báðum stofnunum. Ég hvet velferðarnefnd til að kalla til sín þá undirbúningsnefnd til að fá betri mynd á það þannig að við þurfum ekki að taka umræðuna um það hér. Ég er ekki inni í því starfi dag frá degi, svo að það sé sagt, en þær upplýsingar sem ég fæ eru á þann veg að sú vinna gangi vel.

Varðandi ávinninginn af þessu er ráðgert að af þessu geti orðið sparnaður fyrir ríkissjóð. Á ársgrunni getur það numið um 100 millj. kr. þegar stofnunin er tekin til starfa. Megintilgangur þessa frumvarps er ekki sá að ná fram beinni hagræðingu fyrir ríkissjóð. Megintilgangur frumvarpsins er að fá aukinn slagkraft í málaflokkinn, að framboðs- og eftirspurnarhliðin tali meira saman og að við getum tryggt stöðugleika í húsnæðismálum til lengri tíma litið. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að á fyrsta degi þessa máls verði gríðarlegar uppsagnir en að með tíð og tíma geti beinn fjárhagslegur ávinningur fyrir ríkissjóð orðið um 100 milljónir. En fyrst og síðast er tilgangurinn að tryggja aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði.