150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvörin og beini þeim tilmælum til hans að hann fari gaumgæfilega yfir það sem kemur frá nefndinni þegar málið kemur þaðan og kynni sér svör þeirra gesta sem koma fyrir nefndina. Það er mjög mikilvægt í svona málum að haft sé gott samráð við þá sem sinna þeim störfum sem í hlut eiga. Það er lykilatriði í þessu. Ég hef sagt það áður að farið er mjög bratt í þetta mál. Það kemur mjög snöggt inn í þingið og á að ganga í gegn um áramótin. Ég hef t.d. fengið fregnir af því að húsnæðismálin séu ekki einu sinni tilbúin þannig að margt virðist vera keyrt í gegn án þeirrar forsjárhyggju sem nauðsynlegt er að hafa í mikilvægum málaflokkum sem þessum. Það er afar mikilvægt í sameiningu ríkisstofnana að það sé alveg ljóst hverju þær eigi að skila, hvort sameining feli í sér sparnað fyrir ríkissjóð og síðan að faglegi þátturinn verði efldur. Ég hef ákveðnar efasemdir, eins og ég hef sagt hér, um að faglegi þátturinn sé nægilega ígrundaður hvað þetta varðar. Það er það sem skiptir mestu máli í mínum huga þegar svo mikilvæg stofnun, og ég nefni sérstaklega Mannvirkjastofnun sem sinnir þessum öryggisþætti, er færð yfir í aðra stofnun. Allir þessir þættir verða að liggja fyrir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að hlusta vel á það sem þeir sem best þekkja til í þessum málaflokki, starfsmennirnir sjálfir, hafa fram að færa. Ég hef heyrt af áhyggjum starfsmanna Mannvirkjastofnunar og það er ekki gott innlegg í umræðuna og þessi sameiningaráform.