150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það atriði sem hv. þingmaður beindi til þess sem hér stendur þá fór frumvarpið auðvitað í gegnum samráðsgátt og samráðsferli en ábendingar hvað þennan hlut varðar bárust aldrei. En ég þykist vita eftir ræðu hv. þingmanns að velferðarnefnd muni skoði þetta sérstaklega og ráðuneytið mun þá koma upplýsingum til nefndarinnar sé þess óskað hvað varðar þetta atriði og þingmaðurinn er í góðri stöðu til þess jafnvel að gauka tillögum að nefndinni. En við munum skoða þetta líka í ráðuneytinu og koma upplýsingum til nefndarinnar hvað þetta snertir.

Annars verð ég að segja að mér fannst hv. þingmaður, þegar hann var að lesa svona hér og þar úr frumvarpinu og greinargerðinni, fara einmitt bara vel yfir í upptalningu sinni hversu vel er gætt í frumvarpinu að öllum öðrum öryggisþáttum við stofnun þessarar nýju stofnunar. Þingmaðurinn rakti það ágætlega hvernig við búum um hnútana þannig að þetta fari yfir í nýja stofnun óbreytt, við séum að tryggja öryggið á öðrum sviðum. Raunar má kannski segja að hv. þingmaður svaraði jafnvel betur en ráðherrann áhyggjum flokksbróður síns og sessunautar af því að með frumvarpinu væri ekki verið að tryggja flutning þessara verkefna og öryggi þessara atriða. Þingmaðurinn rakti það ágætlega í sínu máli hversu vel er búið um þá hnúta í frumvarpinu.