150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar og vangaveltur og segja að þetta er auðvitað pólitísk umræða sem þarf að taka, ekki bara um húsnæðismál heldur almennt, eins og þingmaðurinn ræddi hér áðan. Ég vil þó segja að þetta snýst ekki einvörðungu um að safna upplýsingum eins og Hagstofan gerir í dag. Þetta er í rauninni heimild til að miðla upplýsingum. Þegar við fólum Íbúðalánasjóði t.d. það hlutverk að byrja að vinna þessar greiningar og annað slíkt, sem hann er þegar byrjaður að gefa út og við höfum séð í auknum mæli, var það gert á grunni frumvarps sem mig minnir að hafi verið samþykkt á síðasta löggjafarþingi þar sem honum var einmitt falið það hlutverk að byrja að safna upplýsingum héðan og þaðan um húsnæðismál til að fá heildarmynd af því.

Það sem þarna er verið að tala um er í rauninni að taka annars vegar húsnæðisáætlanir sem sveitarfélögin eru að byrja að vinna og allt sem lýtur að húsnæðismálum, þær upplýsingar sem sjóðurinn safnar um húsnæðismál víðar, og síðan er það þessi byggingagátt sem er ekki eingöngu upplýsingasöfnun eða eiginlega þvert á móti, er ekki upplýsingasöfnun eins og þegar Hagstofan safnar upplýsingum heldur er hugsuð sem lifandi gátt. Hún er búin að vera í þróun síðan 2011 og er verið að lögfesta núna og er hugsuð sem lifandi gátt þar sem byggingarfulltrúar og byggingaraðilar eiga að skrá inn upplýsingar og þarna geta verkfræðingar, verkfræðiskrifstofur og aðrir sem eru að vinna að byggingarmálum komist inn á sínum rafrænum skilríkjum.

Þetta á í rauninni að gera alla stjórnsýslu þessa málaflokks skilvirkari. Það var verið að tala um þetta í morgun á fundi hjá Samtökum iðnaðarins. Við hættum að sækja undirskriftir á alla staði og sækja stimplaða pappíra og fara síðan með þá til sveitarfélagsins þar sem þetta er allt skannað og sett inn í gagnagrunn. Þetta er meira svona lifandi (Forseti hringir.) vinnslugátt húsnæðis- og mannvirkjamála má segja. Byggingagáttin sem er búin að vera í þróun hjá Mannvirkjastofnun verður grunnurinn að byggingarhlutanum þar.