150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:08]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil hvað hv. þingmaður er að fara og þá pólitík sem þar er, hvort Hagstofan eigi að vera einn miðlægur aðili sem safnar öllu. Það er gert ráð fyrir því í dag að þessi nýja stofnun muni halda áfram að kalla eftir gögnum um framkvæmdaþáttinn. Hún er ekki bara að kalla eftir upplýsingum frá Hagstofunni heldur líka frá þjóðskrá, frá skattyfirvöldum, eftir atvikum Tryggingastofnun til að fá lýðfræðilega þætti. Mín skoðun er sú að það sé mjög skynsamlegt að hafa þetta inni í þessari sameinuðu stofnun vegna þess að við höfum verið að kalla eftir slíkum upplýsingum vegna aðgerðanna sem við erum að skipuleggja í húsnæðismálum, við séum ekki að ná ákveðnum markhópum o.s.frv., og það gefur stofnuninni tækifæri til þess, í nafni stjórnvalda, að gera greiningar, vinna áætlanir, skipuleggja aðgerðir og átta sig á því hvernig þær eru að virka, hvort þær séu að skila árangri o.s.frv. Mín persónulega skoðun er sú að það sé mjög mikilvægt að hafa þessa vinnu í nýrri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Um það geta verið skiptar skoðanir en ég held að það sé stærri umræða ef við ætlum að færa upplýsingasöfnunina úr öllum stofnunum sem eru að vinna slíkt yfir til Hagstofunnar þó að ég skilji mjög vel hvað þingmaðurinn er að fara og að Hagstofan eigi að safna öllum þessum upplýsingum. En þá veltir maður líka fyrir sér hvort það eigi ekki bara að vera gagnkvæmt. Það er alla vega mín skoðun en auðvitað skoðar nefndin og fer yfir þetta mál og þessar greinar eins og aðrar.