150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mál, um sameiningu þessara tveggja stofnana og vil hvetja nefndina til að taka þau mál sem hafa verið nefnd hér til skoðunar og hvetja hana jafnframt til góðra verka. Ég held líka að búið sé að búa þannig um málið að mögulegt sé að sameining gæti orðið að veruleika strax á nýju ári. Það er auðvitað þingsins að meta með hvaða hraða það vill afgreiða þessi mál og fordæmi eru fyrir því. Sá sem hér stendur hefur komið með mál á þessu kjörtímabili þar sem þingið hefur flýtt gildistöku laga. Það er því í höndum þingsins að taka ákvörðun um slíkt í þessu eins og öðrum málum. Ég vil þó hvetja til þess að það verði skoðað líka í ljósi uppskiptingar máls, vegna þess að við erum að tala um þennan ÍL-sjóð þar sem fjármagn er inni sem ríkissjóður hefur og er á neikvæðum vaxtamun á hverjum einasta degi. Það skiptir því miklu fyrir þá fjárhagslegu stöðu fyrir ríkissjóð að sá sjóður geti sem fyrst flust yfir til fjármálaráðuneytisins vegna þess að hann snýst á engan hátt um húsnæðis- og mannvirkjamál í þeirri mynd sem við erum að tala um í þessu frumvarpi. Það snýst einfaldlega um það að fjármálaráðuneytið með verksviði sínu og verkefnum er miklu betur í stakk búið til að draga úr þeim vaxtamun fyrir ríkissjóð varðandi þá fjármuni sem þar liggja inni.

Íbúðalánasjóður hefur ekki það hlutverk að sýsla með slíkar upphæðir sem hlaupa á hundruðum milljarða og félagsmálaráðuneytið hefur það ekki heldur og félagsmálaráðuneytið ætlar ekki að bæta við starfsfólki til að sinna því hlutverki vegna þess að það er fjármálaráðuneytið sem ætti að sinna því. Mér finnst mikilvægt að nefna þetta hér vegna þess að það er grunnurinn á bak við þessa dagsetningu sem þarna er fyrst og síðast, að það er gríðarlega mikilvægt að þetta geti gengið í gegn hvað það snertir og við erum sannfærð um að geta gert það miðað við hvernig haldið er utan um verkefnið. Ég hvet nefndina til að kalla til sín þá undirbúningsnefnd sem er að undirbúa sameiningu þessara stofnana vegna þess að við erum sannfærð um að það er mögulegt að gera þetta á þessum tíma. Búið er að vinna góða vinnu og við getum fengið öfluga og kraftmikla stofnun strax á nýju ári. Þetta var það sem ég vildi segja.

Hvað varðar aðrar athugasemdir sem fram hafa komið í ræðum þeirra ágætu hv. þingmanna sem hafa talað hvet ég nefndina til að skoða þau mál. Ég lagði til að málinu yrði vísað til hv. velferðarnefndar og við það stend ég. Þrátt fyrir tillögu sem komin er frá einum þingmanni og formanni umhverfis- og samgöngunefndar að málið fari þangað hlýtur það að vera eitthvað sem verður útkljáð í þingsal áður en málinu verður vísað áfram.

Ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrir þær athugasemdir sem borist hafa og hvet þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar til að vinna hratt og vel vegna þess að þetta er bæði brýnt mál gagnvart fjárhagsstöðu ríkissjóðs og líka mikilvægt mál til að fá aukinn slagkraft í húsnæðis- og mannvirkjamálin sem Samtök iðnaðarins, af því að hv. þm. Bergþór Ólason vitnaði til þess áðan, hafa verið að kalla eftir að fá aukinn slagkraft í og fögnuðu því sérstaklega á fundi í morgun, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að verið væri að mæla fyrir sameiningu þessara tveggja stofnana í dag.