150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi einstaka liði sem er að finna í fjáraukalagafrumvarpinu eða fara undir almenna varasjóðinn held ég að það sé einmitt uppistaðan af vinnu nefndarinnar að fá nánari skýringar. Við erum boðin og búin til að veita þær eftir því sem kallað er eftir því. Það á t.d. við um kirkjumálin og samninga tengda þeim. Heimildir til millifærslu milli ára verða eftir sem áður nýttar þar sem það á við. Það þarf að skoða hvert og eitt tilvik, hvort um hafi verið að ræða einskiptisheimildir eða hvort eðlilegt sé að viðkomandi fjárhæðir færist milli ára og þar kemur umfangið aftur til skoðunar. En almennt erum við að færa á milli ára allt sem er innan eðlilegra vikmarka sem ráðuneytin þekkja vel og þannig dregur úr hvatanum til að ráðstafa fjármunum innan árs að óþörfu.