150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir 2019. Eins og komið hefur fram í þessum ræðustól þá eiga allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir að koma fram í fjárlögum og útgjöldin verða að falla til á árinu og ríkissjóður getur ekki komist hjá því að greiða þau. Í frumvarpinu kemur fram að um er að ræða áhrif kjarasamninga umfram forsendur fjárlaga, verðlags- og gengismál og nýja löggjöf sem ekki var fyrirséð. Hafa ber í huga að hér þarf sérstaklega að gæta að hlutverki varasjóðs áður en til kasta fjáraukalaga kemur því að á meðan varasjóðinn ekki þrýtur er honum ætlað að taka högg sem þessi. Í því sambandi þarf að horfa til þess að í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að fram komi skrá yfir öll lög sem breyta þurfi til að sú áætlun nái fram að ganga. Því er ljóst að lög um opinber fjármál gera miklar kröfur til stjórnvalda um að þau rýni líftíma fjármálaáætlunar með tilliti til lagabreytinga. Meðal annars í þessu ljósi þarf að horfa til frumvarps til fjáraukalaga því markmið laga um opinber fjármál er að auka ábyrgð ráðuneyta á áætlanagerð, stefnumótun, og fjármálastjórn innan ábyrgðarsviða þeirra. Markmiðið er að sjálfsögðu að gera fjáraukalög sem helst óþörf.

Athygli vekur að frumvarpið felur ekki í sér heildarendurmat á áætluðum útgjöldum ársins. Það felur í sér að misræmi getur myndast í samanburði á tillögum að breyttum fjárheimildum, annars vegar í frumvarpinu og heildarendurmati áætlaðra útgjalda yfirstandandi árs. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun fjárheimilda um 14,8 milljarða eða 1,6% af fjárlögum. Um er að ræða 7,6 milljarða kr. framlag til ábyrgðarsjóðs launa, eins og fram hefur komið hér, sem að stórum hluta má rekja til falls WOW air á árinu. Þá er það greiðsla vegna Fæðingarorlofssjóðs upp á 1,1 milljarð þar sem hámarksgreiðslur hafa hækkað frá fyrra ári og foreldrum hefur fjölgað miðað við forsendur fjárlaga. Í öðru lagi hækka liðirnir Örorka og málefni fatlaðs fólks og Málefni aldraðra um 7,3 milljarða, þar af eru 5,4 milljarðar vegna dóms Landsréttar, eins og hæstv. ráðherra rakti hér, um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Um er að ræða leiðréttingu á greiðslum ellilífeyris hjá 29.000 manns, eins og hér hefur komið fram, að meðaltali um 190.000 kr. á hvern ellilífeyrisþega.

Nú hefur legið fyrir lengi að óheimilt er að setja lög sem beitt er afturvirkt eða með afturvirkum hætti en stjórnvöld ákváðu að skerða greiðslur til ellilífeyrisþega aftur í tímann. Því liggur fyrir að fátt er óvænt við það að Landsréttur dæmi afturvirkar skerðingar ólögmætar og því má gagnrýna að fyrirséðar afleiðingar ráðstafana ríkisstjórnarinnar séu færðar í fjáraukalög sem einungis taka á ófyrirséðum atburðum. Má því færa gild rök fyrir því að hér sé um málefni varasjóðs að ræða og jafnvel að hækka þyrfti framlög á fjárlögum 2020 til að greiða þennan kostnað.

Í frumvarpinu eru örorkubætur leiðréttar í samræmi við túlkun ráðuneytisins á áliti umboðsmanns Alþingis sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris. Í þessu samhengi, herra forseti, er rétt að velta því fyrir sér hvort þennan lífeyri ætti að greiða í hlutfalli við búsetu viðkomandi í viðkomandi löndum og einnig hvort gæta þurfi að mismunandi meðferð örorkubóta og annarra bóta og framkvæmdar slíkra bótagreiðslna sem kunna að vera framkvæmdar með mismunandi hætti milli landa. Með þessu er ekki átt við að ætlunin sé að skerða greiðslur heldur að tryggja að þeim réttindum sem þegnarnir eiga sé skipt eftir því í hvaða ríkjum þau mynduðust. Með öðrum orðum: Er það eðlilegt og getur það verið svo að einstaklingur sem hefur t.d. búið í einu ríki tvo þriðju hluta starfsævinnar og einn þriðja á Íslandi fái allar örorkubæturnar frá íslenska ríkinu? Er ekki eðlilegra að ríkin skipti þessum kostnaði sín á milli? Áhrifin af áliti umboðsmanns Alþingis nema um 800 millj. kr. eins og komið hefur hér fram á árinu 2019 og 320 manns hafa fengið leiðréttingu það sem af er árinu.

Gert er ráð fyrir 1,5 milljarða kr. aukningu framlaga vegna halla Sjúkratrygginga Íslands á yfirstandandi ári sem ekki hefur verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum. Einkum er um að ræða umframútgjöld vegna sjúkraþjálfunar sem nema 660 millj. kr. eða 13% umframútgjalda. Þessi gjöld hafa hækkað um 177% samanborið við fjárlög fyrir árið 2015. Þar sem ráðherrum ber að bregðast við frávikum með viðeigandi ráðstöfunum á þeim málefnasviðum sem þeir bera ábyrgð á og fram kemur í frumvarpinu að ekki hafi verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum verður ekki séð að þessi liður eigi erindi inn í fjáraukalög. Í frumvarpinu er því lýst á bls. 45 að ráðherra hafi ekki gert það sem honum var falið að gera lögum samkvæmt til að bregðast við þessu mikla fráviki. Þessari fjárhæð og þessum halla á Alþingi að vísa aftur til ráðherra til úrlausnar því að það er ekki hlutverk Alþingis að leysa einföld rekstrarverkefni á fjáraukalögum.

Þá er áætlað að útgjöld vegna erlendrar sjúkrahúsþjónustu verði 410 milljónir umfram forsendur fjárlaga. Það er eðlilegt að veittar séu nægar upplýsingar um lið sem þennan þannig að honum verði annars vegar skipt í nauðsynlega erlenda sjúkrahúsþjónustu sem ekki er unnt að veita hér á landi og hins vegar sjúkrahúsþjónustu sem veitt er á Íslandi en þar sem biðtími eftir slíkri þjónustu er orðinn það langur hafa einstaklingar réttindi lögum samkvæmt til að sækja þjónustuna erlendis og hafa nýtt sér sjálfir slíkar heimildir eða í samráði við sína lækna. Því má velta fyrir sér hvort sá hluti erlendrar sjúkrahúsþjónustu sé ekki hluti af því sem ráðherra er ætlað að bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum sem m.a. felast í rétt fram settum fjárlögum því að vanáætlanir sem vitað er um fyrir fram gefa ekki tilefni til framlaga á fjáraukalögum. Verður því ekki betur séð en að þessum hluta erlendrar sjúkrahúsþjónustu beri að vísa aftur til ráðherra sem grípi til viðeigandi ráðstafana, sem honum var falið að grípa til, annars vegar við gerð réttra fjárlaga fyrir árið 2019 og síðan með ráðstöfunum innan fjárlaga ársins. Almenn læknisþjónusta er ekki fjáraukamál. Það má ekki vanáætla fjárlög og setja síðan þau verk sem ráðherrar láta hjá líða að bregðast við inn í fjáraukalög.

Einnig hefur komið fram hér og í ræðu ráðherra og í frumvarpinu að áætlað er að útgjöld til hjálpartækja nemi 270 millj. kr. umfram fjárheimildir eða 5,2%. Vanáætlanir fjárlaga á ekki að bæta á fjárauka. Fyrir liggur að þörf fyrir hjálpartæki vegna hærri aldurs fer sífellt vaxandi. Hér virðast enn vera á ferðinni útgjöld sem annars vegar hefði átt að áætla ríflega á fjárlögum eða grípa til viðeigandi ráðstafana og verður því ekki séð að þessi liður eigi heima í fjáraukalögum heldur sé um að ræða verkefni sem ráðherra er falið að leysa.

Gert er ráð fyrir u.þ.b. 790 millj. kr. framlagi vegna Herjólfs. Um er að ræða lokagreiðslu til pólsku skipasmíðastöðvarinnar sem tók að sér smíði skipsins. Fyrir liggur að gerðar voru verulegar breytingar á skipinu eftir að Alþingi veitti heimild til smíði þess. Þær breytingar voru að sjálfsögðu margar hverjar nauðsynlegar og ferjan sem slík mikil samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga en þessar breytingar voru ekki kynntar Alþingi og aldrei óskað eftir viðbótargreiðslum vegna þeirra. Nú er óskað eftir því að Alþingi greiði þennan kostnað en það hefur ekki fengið skýrslu eða yfirlit yfir uppgjör vegna smíðinnar þannig að það hafi forsendur til að uppfylla þessa fjárbeiðni. Ráðherra hefur svigrúm í varasjóðum til að bregðast við eðlilegum frávikum og þar sem hann hefur ekki gert fjárlaganefnd grein fyrir aukinni fjárþörf á smíðatímanum og vísað til þess að allar breytingar verði fjármagnaðar vekur það spurningu um að hvaða marki þetta uppgjör á heima í fjárauka. Því er ekki eðlilegt að taka þessa fjárbeiðni í fjáraukalög fyrr en greint er milli þess sem ráðherra var að leysa og þess sem var óvænt. Það þarf einnig að horfa til varasjóðsins og rökstyðja það, ef greiðslan er jafn óvænt og hér er sagt frá, hvers vegna þetta er ekki borgað úr almenna varasjóðnum.

Herra forseti. Þá kemur fram að verið sé að greiða upp kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu nýja Herjólfs til Vestmannaeyja. Ekki er gerð grein fyrir því í hverju þessi kostnaðarauki liggur og því er ekki hægt að leggja mat á réttmæti hans fyrr en þær upplýsingar hafa verið lagðar fram.

Á bls. 45 í frumvarpinu koma fram breytingar á útgjaldaskuldbindingum að fjárhæð 2,3 milljarðar undir liðnum Annað. Nauðsynlegt er að ráðherra leggi fram sundurliðun og skýringar þessara gjalda. Þá kemur fram á sömu blaðsíðu frumvarpsins lækkun almenns varasjóðs á móti auknum framlögum til annarra útgjaldamála að upphæð 5,1 milljarður kr. Nauðsynlegt er að þessu fylgi sundurliðun og skýringar.

Á bls. 46 koma fram breytingar á fjárfestingarframlögum að upphæð 47 millj. kr. og á öðrum liðum utan rammasettra útgjalda að fjárhæð 6,3 milljarðar kr. Nauðsynlegt er að fá sundurliðun og skýringar hvað þetta varðar.

Á bls. 48 í frumvarpinu er lagt til að lánsfjárheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 45 milljörðum kr. í 52 milljarða kr. vegna sveiflna á útistandandi fjárhæð ríkisvíxla sem nýttir eru í lausafjárstýringu ríkissjóðs. Því er spurt hvort greiðsluafkoma ríkissjóðs sé verri en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem verið er að hækka lánsfjárheimildina um 7 milljarða kr.

Heildarskuldir ríkissjóðs nema um 892 milljörðum kr. í stað 832 eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi eða aukist um 60 milljarða kr. sem er 7,2% hækkun. Skýringin er sú, eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra, að ríkissjóður gaf út nýtt skuldabréf í erlendri mynt að fjárhæð 500 milljónir evra sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum. Í skýringartexta frumvarpsins kemur fram að andvirði lántökunnar myndi innstæðu í evrum og hafi því óveruleg áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál. Þar sem 7,2% hækkun skulda er í hærri kantinum miðað við aðrar hagstærðir verður ekki betur séð en það hafi verið tilefni til að birta sjóðstreymið með frumvarpinu til glöggvunar fyrir þingheim enda er sjóðstreymi mikilvægt tæki til greiningar á öllum rekstri. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það fram frá ráðherra hvort hann telji, andstætt því sem markaðurinn telur og aðrir í rekstri, að gildi sjóðstreymis sé lítið þar sem það er ekki lagt fram með frumvarpinu. Það er spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að bæta úr þessu hið fyrsta. Hér tekur ríkissjóður sem sagt lán í evrum og leggur það inn í Seðlabankann. Eðlilegt hefði verið að gera grein fyrir markmiðum lántökunnar. Ef ætlunin er að ráðstafa andvirði innstæðunnar fljótlega kynni það að hafa áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs sem eðlilegt hefði verið að ráðherra gerði grein fyrir í frumvarpinu því varla var það hugmyndin að taka lán til þess eins að geyma það inni á bankareikningi.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er naumur. Ég vil koma aðeins inn á það sem kemur fram á bls. 49 í frumvarpinu að gert er ráð fyrir heimild til að koma á hlutafélagi vegna þjóðarleikvangs í Laugardal og leggja félaginu til 5 millj. kr., sem er svo sem ekki há upphæð. Talað hefur verið um þennan þjóðarleikvang í Laugardalnum í áratugi og ekkert óvænt við slík áform og á það tæpast heima í fjárauka (Forseti hringir.) og ætti frekar að vísa þessu í fjárlög. (Forseti hringir.) Það er fleira sem ég hefði viljað koma inn á, herra forseti, en tímans vegna læt ég hér staðar numið að sinni.