150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða.

341. mál
[19:19]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er fullkomlega sammála hæstv. fjármálaráðherra um að auðvitað er það mikilvægt verkefni að samræma okkur við evrópska löggjöf, sérstaklega í fjármálalegum efnum, sem hefur stundum verið kallað eftirhrunsregluverk Evrópu. En eftir sem áður, af því að það kom ekki beint svar við spurningu minni um fjölda: Er það rétt skilið hjá mér að það séu ekki aðilar á Íslandi í dag sem myndu falla undir leyfisskylduna? Þetta væru í rauninni einhverjir smærri aðilar, bara svo ég hafi það á hreinu.

Hvað varðar Liechtenstein verð ég að viðurkenna að ég þekki heldur ekki nákvæmlega hverju þeir breyttu. Ég veit bara að þeir gerðu einhverjar aðlaganir sem sneru að því að herða skilyrði fyrir leyfi. Auðvitað er það hluti af þessu samræmi um eftirlit og viðbrögð og ég vona að við náum að fara svolítið yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd til að átta okkur á hvað var verið að gera þar.

En það væri gaman að fá svar hjá hæstv. ráðherra um fjölda aðila hér á landi, bæði sem væru leyfisskyldir og tilkynningarskyldir samkvæmt þessu.