150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Framkvæmdum vegna nýs Landspítala við Hringbraut á að ljúka árið 2024. Það kemur því á óvart að meirihluti fjárlaganefndar leggur til að fjárveiting til byggingar nýs Landspítala lækki um 3,5 milljarða frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem var til 1. umr. fyrir aðeins mánuði síðan. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir að frekari tafir verða á framkvæmdum frá því sem áður var þekkt þegar unnið var að fjármálaáætlun 2020–2024. Í henni er gert ráð fyrir 8,5 milljarða kr. fjárfestingarframlagi til byggingar spítalans á næsta ári. Nú er gert ráð fyrir að um 3,5 milljarðar kr. framlagsins verði ekki nýttir innan ársins og flytjist til ársins 2021. Meiri þungi framkvæmda verður því árin 2021–2024.“

Hér er dregið úr framkvæmdafé næsta árs í þetta mikilvæga verkefni um hvorki meira né minna en 43%. Það er ekki í samræmi við það sem segir í fjármálastefnunni um að framleiðsluspenna sé að snúast í meiri slaka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sá slaki gefur stjórnvöldum færi á að auka sérstaklega framlög til ýmissa fjárfestingarverkefna á vegum ríkisins þar sem bygging nýs Landspítala og átak í samgöngumálum ber hæst.“

Herra forseti. Hvaða vandræðagangur er þetta? Eru ekki allir sammála um að nýr Landspítali sé forgangsverkefni? (Forseti hringir.) Er þessi niðurskurður það besta sem ríkisstjórninni datt í hug til að loka fjárlagagatinu?