150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt kjarni máls að óvissu verður ekki aflétt fyrr en ári er lokað, á árinu 2020. Eftir rúmt ár munum við sjá hvernig útkoman verður af þeim fjárlögum sem við ræðum hér. Þegar ríkisstjórnin er fyrir fram búin að eyða öllu óvissusvigrúminu er hún væntanlega að gera það í trausti þess að enga óvissu sé að finna í þjóðhagsspá næsta árs, að engri óvissu þurfi að mæta á næsta ári. Þá bendi ég aftur á að við ræddum í gær fjáraukalög sem sýndu 1,5% frávik í afkomu hins opinbera á milli ára af þeirri óvissu sem fylgdi efnahagsástandinu frá því að við kláruðum fjárlög í fyrra þar til við erum að byrja að ræða fjáraukalög fyrir árið 2019.

Ég spyr þá: Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera að ári liðnu ef óvissa reynist svipuð áfram eins og verið hefur, því að enn eru ekki öll kurl komin til grafar um það hversu djúp þessi niðursveifla verður?