150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir prýðisræðu. Ég get tekið undir margt af því sem hún fór yfir. Hún ræddi þó nokkra málaflokka og kom m.a. inn á skattkerfið og þær skattkerfisbreytingar og skattalækkanir sem eiga við um tekjuskatt einstaklinga. Mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns að hún væri ekki par hrifin af þeim breytingum sem birtast okkur hér og eru í tengslum við lífskjarasamninga sem mun taka tvö ár að innleiða að fullu. Ég vil halda því til haga, þegar við horfum á þetta út frá hagstjórnarsjónarmiðum, að við aukum ráðstöfunartekjur með skattalækkunum. Hv. þingmaður dró fram tölur um auknar ráðstöfunartekjur en þegar aðgerðirnar eru komnar fram að fullu munu ráðstöfunartekjur, vegna þess að þessu er beint að lægri tekjunum sérstaklega með nýju viðbótarþrepi, aukast um 70.000–120.000 kr. fyrir tekjur á bilinu 325.000–600.000 kr. Mér fannst hv. þingmaður gera lítið úr þessum breytingum. Við skiljum eftir, þegar þetta verður komið til framkvæmdar að fullu, 21 milljarð í hagkerfinu, hjá fólkinu í landinu. Við þær efnahagslegu aðstæður sem eru uppi erum við með aðgerðir til að veita viðspyrnu í hagkerfinu gegn hjaðnandi hagvexti sem spár gera ráð fyrir. (Forseti hringir.) Ég vil fá nánari útskýringar á þessu hjá hv. þingmanni.