150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en ég verð að mótmæla henni harðlega vegna þess að sérstaka framfærsluuppbótin var sett á af Vinstri grænum og Samfylkingunni á sínum tíma. Hún var sett á rétt eftir hrun, ef ég man rétt, og það loforð gefið þegar öryrkjar og aðrir voru skertir að það fyrsta sem yrði gert væri að leiðrétta kjör þeirra. Það var aldrei gert. Leiðrétt var hjá öllum öðrum en þeim.

Svo er annað í þessu. Það sem hv. þingmaður sagði gildir um eldri borgara, nákvæmlega það sama. En þeir eru búnir að fá þetta og þar af leiðandi eru þeir að taka þetta af öryrkjum. Það sem er mjög ósanngjarnt, eiginlega fáránlega ósanngjarnt, við sérstöku uppbótina er að það eru allar tekjur undir. Það veldur keðjuverkandi skerðingum. Það er ekki hægt að fá krónu á einum stað án þess að hún sé tekin annars staðar, jafnvel á fleiri en einum stað. Ef þú færð krónu á einum stað getur þú verið að tapa 2 kr. út af kerfinu. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að nokkur skuli reyna að verja slíkt kerfi. Fyrir utan það að fyrir síðustu kosningar lofuðu allir flokkar því að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það lofuðu líka allir flokkar því að kjaragliðnunin yrði leiðrétt. Er verið að gera eitthvað? Jú, í staðinn fyrir krónu á móti krónu skerðingu er verið að taka 65 aura á móti krónu sem skilar svo engu vegna þess að það hefur keðjuverkandi skerðingar í för með sér út í kerfið. Flestir þeir sem mest þurftu á þessu að halda fengu það ekki. Það var ekki einu sinni hugsað út í það að dreifa því niður á átta mánuði heldur átti að borga það í einu lagi. Svo er sagt við fólkið, veikt fólk: Þið getið bara kært, þið eigið bara að kæra þetta til að láta dreifa þessu. Við erum að tala um veikt fólk og við eigum að koma fram við það af virðingu og sjá til þess að það fái nákvæmlega sama og eldri borgarar hafa fengið.