150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í morgun var mjög áhugaverð ráðstefna sem Tryggingastofnun stóð fyrir þar sem var m.a. verið að sýna þróun í kjörum örorku- og ellilífeyrisþega með ólíkum sviðsmyndum eftir ólíkum aldri og fjölskylduaðstæðum fólks. Þar sást svart á hvítu þegar sérstöku framfærsluuppbótinni var komið á — það var þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra — hvernig það hækkaði þá sem höfðu engar aðrar tekjur sér til framfærslu en greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir kjör þeirra sem hafa ekkert annað upp á að hlaupa og geta ekki aukið tekjur sínar með til að mynda atvinnu eða ef þeir fóru það ungir inn á örorkulífeyrisgreiðslur að þeir eiga ekki réttindi í lífeyrissjóðum. Þetta er hægt að sjá á tölum frá Tryggingastofnun. Það er ekki lengur nein króna á móti krónu skerðing. Það eru hins vegar vissulega skerðingar í kerfinu.

Ég tel að það sem þurfi fyrst og fremst að gera núna sé að gera enn betur til þess að bæta kjör þeirra sem hafa ekkert annað sér til framfærslu. Það var reyndar stigið gríðarlega mikilvægt skref í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem dregið var úr tekjutengingum við útreikning á skerðingarhlutföllum þegar kemur að aldurstengdum greiðslum í almannatryggingakerfinu. Það var gríðarlega mikilvægt hagsmunamál og kjarabót fyrir (Forseti hringir.) yngstu lífeyrisþegana. Þannig að jú, við þurfum að gera meira en það er svo sannarlega búið að setja fjármagn og það er byrjað að gera (Forseti hringir.) mikilvægar breytingar til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)