150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans áðan. Ég hjó eftir því að hann talaði um hjúkrunarheimili og vil spyrja hann hvort hann sé ánægður með það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þar stendur orðrétt á bls. 14, með leyfi forseta:

„Mikill meiri hluti hjúkrunarheimila er rekinn með halla ár eftir ár …“

Neðar í sama kafla segir, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti meiri hluta um fjármálaáætlun var lagt til að ráðherra skipaði þverpólitíska nefnd sem færi yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila. Meiri hlutinn ítrekar þessi tilmæli og bendir á að fyrir næstu fjármálaáætlun verði að liggja fyrir úrræði um rekstrarvanda heimilanna enda er með skýrum hætti horft til eflingar á þessu þjónustuúrræði í stjórnarsáttmála.“

Það vantar örugglega 20–40% upp á að hjúkrunarheimili standi undir kostnaði á hvern einstakling. Þetta hefur verið vandi ár eftir ár. Ef við horfum á þetta er það alveg stórfurðulegt miðað við að þjóðin er að eldast og að þetta verður meira og meira vandamál. Þarna á að fara að setja nefnd um eitthvað sem er vitað mál að verður að taka á. Ég spyr bara: Hvers vegna í ósköpunum er ekki tekið strax á þessu í fjárlagafrumvarpinu eins og krafa er um frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu?