150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

vera Íslands á gráum lista og aðgerðir gegn peningaþvætti.

[10:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Kveikur og Stundin greindu frá hrikalegu ráðslagi íslensks stórfyrirtækis í sókn sinni í auðlindir í Afríku, vægast sagt biksvartar fréttir sem kalla á ítarlega rannsókn íslenskra stjórnvalda. Þau orð hafa verið látin falla í þessum ræðustól, í tengslum við svokallaðan gráan lista, að á þeim lista ættum við auðvitað ekki heima, það sæju allir. Mér sýnist að það sé orðið býsna erfitt fyrir alla að sjá að við eigum ekki heima á slíkum lista og að full ástæða sé fyrir okkur að taka þetta mál mjög alvarlega, ekki bara líta á það sem stakt atvik, undantekningu, einsdæmi. Það eru vísbendingar um það að víða kunni pottur að vera brotinn. Þess vegna þurfum við að taka slík mál mjög alvarlega.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem við erum skuldbundin af mörgum alþjóðlegum samningum og erum undir smásjá og verðum það sérstaklega í kjölfar þessa máls, hvort hún telji að stofnanir okkar séu í stakk búnar til að takast á í alvöru við mál af þessu tagi. Jafnframt langar mig að inna hana eftir hvað líður skýrslu dómsmálaráðuneytisins um ástæður þess að við erum á gráa listanum sem boðað var að ætti að koma í síðustu viku, í allra síðasta lagi í þessari viku. Kemur hún í dag eða á morgun?