150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

vera Íslands á gráum lista og aðgerðir gegn peningaþvætti.

[10:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það hvort við eigum með réttu eða röngu að vera á hinum margumrædda gráa lista skal ég láta liggja milli hluta. Mér finnst yfirleitt að menn fari dálítið mikið í tæknilegar varnir. Kjarni málsins í mínum spurningum er þessi: Er einhver sérstök ástæða fyrir okkur Íslendinga að ætla, miðað við t.d. fréttir af þessu tagi, miðað við það sem áður hefur komið fram, að ekki sé verið að stunda starfsemi sem fer gegn íslenskum lögum og reglum, sem fer gegn þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum gengist undir? Það sem ég er eiginlega að kalla eftir: Tökum við almennt nógu alvarlega vísbendingar um það að Íslendingar séu ekki endilega alltaf barnanna bestir?